sunnudagur, 20. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílvertíðin hefur verið sveiflukennd

9. júlí 2020 kl. 15:00

Huginn VE. (Mynd Þorgeir Baldursson)

6.000 tonn af makríl komin á land hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum á þriðjudag.

„Makrílvertíðin hefur verið sveiflukennd en í heildina tekið gengur hún samkvæmt áætlun. Við höfum tekið við um 6.000 tonnum til vinnslu frá og með fyrstu löndun,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, og miðar þar við upphaf vertíðar 12. júní síðastliðinn.

Þetta kemur fram í frétt Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

„Vertíð byrjaði vel, svo kom kafli þar sem veiði var dræm en meiri kraftur færðist í þær undanfarna tvo sólarhring. Landað var úr Huginn í gær (mánudag), í dag (þriðjudag) er landað úr Kap og Ísleifur bíður löndunar.“

Huginn hélt aftur úr höfn seint á þriðjudagskvöld til veiða suður af Vestmannaeyjum.

„Við fengum 90 tonn í holli í nótt en eftir það hefur verið rólegt,“ sagði Guðmundur Huginn Guðmundsson skipstjóri.

„Hér er blíðuveður og það teljast kjörstæður til að ná makrílnum,“ segir Guðmundur Huginn.