þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílvertíðin við landið teygist fram á haustið

1. september 2016 kl. 12:01

Bjarni Ólafsson AK landar makríl til vinnslu í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Á þessum tíma í fyrra voru skipin að veiðum langt austur í hafi.

"Þessi makrílvertíð virðist ætla að teygja sig lengra fram á haustið en vertíðir síðustu ára hafa gert. Á þessum tíma í fyrra voru skipin að veiða langt austur í hafi. Annars hefur veiðst vel að undanförnu, þrátt fyrir dagamun. Þá hefur tíðin verið einstaklega góð og það skiptir svo sannarlega miklu máli," segir Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki NK í samtali  á heimasíðu Síldarvinnslunnar. 

Nú er verið að landa 520 tonnum af makríl í fiskiðjuver SVN  úr Bjarna Ólafssyni AK. Reiknað er með að löndun úr honum ljúki um hádegisbil og þá kemst Börkur NK að, en hann bíður löndunar með 650 tonn.

„Aflinn í þessum túr fékkst í þremur holum austan við Hvalbak. Það er að ganga fiskur frá landinu þarna út og þarna er hann í æti og virðist ekki vera á förum. Annars er makríllinn þannig að stundum sést mikið af honum og stundum lítið eða ekkert. Þetta er fiskur sem syndir hratt og ýmist hverfur eða blossar upp. Það var mikið líf á veiðisvæðinu seinni partinn í gær og allt leit vel út," segir Hjörvar.