mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílviðræður í London í dag

15. janúar 2014 kl. 13:23

London

Norðmenn vilja ganga skemur en ESB.

Í dag hófst í London samningafundur Íslands, Færeyja, Evrópusambandsins og Noregs um lausn makríldeilunnar. Ljóst þykir að Norðmenn vilji ganga skemur til móts við Íslendinga og Færeyinga en Evrópusambandið vill.

Í síðustu viku hittust fulltrúar Noregs og ESB í Bergen til þess að stilla saman strengi sína fyrir samningafundinn. Meðan á fundinum stóð lýsti John Spenser formaður samninganefndar  ESB yfir því að hann vonaðist til að Noregur og ESB næðu samkomulagi um hvað bjóða ætti Íslendingum og Færeyingum. Samkvæmt heimildum Fiskeribladet/Fiskaren náðist slíkt samkomulag ekki í Bergen. 

Síðastliðið haust lagði María Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB til að Íslendingar og Færeyingar fengju 11,9% kvótans hvor þjóð en áður höfðu Noregur og ESB verið sammála um að bjóða þjóðunum tveimur samtals 16%. Fiskeribladet/Fiskaren kveðst hafa heimildir fyrir því að Norðmenn vilji ekki teygja sig lengra en að bjóða Íslandi og Færeyjum 9-10% hvorri þjóð. Ef hærri prósentutala yrði niðurstaðan þyrfti ESB að taka á sig viðbótina. Núna er hlutur ESB 65% og hlutur Noregs 29%.

Færeyingar höfnuðu tilboði Damanaki um 11,9% þeim til handa í haust og héldu fast við kröfu sína um 16%. Hins vegar var ekki annað að heyra á Sigurði Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra í sjónvarpsþætti síðastliðinn sunnudagsmorgun en að bæði stjórnvöld og hagsmunaaðilar á Íslandi sættu sig við 11,9%  Íslandi til handa.