föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Málefni hafsins rædd í Bonn

18. nóvember 2017 kl. 16:00

Bolungarvík

Á ársþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fagnaði Ísland því að málefni hafsins hafi fengið sérstaka athygli. Í ræðu Íslands sagði að afleiðingar lotslagsbreytinga væru vel sýnilegar á Íslandi.

Málefni hafsins hafa, fyrir forgöngu Fiji, fengið sérstaka athygli á árlegu aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, hinu 23. í röðinni, sem lauk í Bonn í Þýskalandi í gær.

Ísland fagnaði frumkvæði Fiji, sem fór með formennsku á þinginu, í innleggi sínu á fundinum og sagði súrnun hafsins eina helstu ógn sem tengdist loftslagsbreytingum. 

Eitt helsta verkefni þingsins er að vinna að útfærslu Parísarsamningsins um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, sem samþykktur var fyrir tveimur árum. Stefnt er að ná niðurstöðu í þessum efnum á næsta ári, en flest ríki heims hafa sent inn markmið um hvernig þau hyggjast takmarka losun fram til 2030. 

Ísland sagði í ræðu sinni að afleiðingar loftslagsbreytinga væru vel sýnilegar á Íslandi, meðal annars í hopandi jöklum. Eina raunhæfa lausnin til lengdar til að takast á við súrnun hafsins og aðrar birtingarmyndir breytts loftslags væri að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland styddi Parísarsamninginn eindregið og nauðsynlegt væri að hrinda ákvæðum hans í framkvæmd. Hvað Ísland snerti væri nær ekkert jarðefnaeldsneyti brennt til hitunar og rafmagnsframleiðslu, en forgangsmál væri að draga úr losun frá bílum og skipum. Skógrækt, landgræðsla og önnur loftslagsvæn landnotkun væri mikilvægt tæki til ná markmiðum.