mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mannaflaþörf minnkaði um 90% - á 13 árum

svavar hávarðsson
11. desember 2018 kl. 07:00

Finnbogi Jónsson.

Samstarf tækni- og sjávarútvegsfyrirtækja hefur valdið stórstígum breytingum í sjávarútvegi

Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Knarr Maritime Consortium, dregur upp afar skýra mynd af þeim breytingum sem hafa orðið í íslenskum sjávarútvegi á stuttum tíma. Þeim verður ekki lýst öðruvísi en bylting hafi orðið, og byggir á nýsköpun og samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja, tæknifyrirtækja og háskólasamfélagsins.

Finnbogi flutti erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni 2018 sem er núafstaðin. Hann lagði út frá því sem hann kallaði þrískiptingu að farsælum rekstri í sjávarútvegi; skilvirku fiskveiðistjórnunarkerfi, vel mönnuðum skipum og fiskvinnslu og áherslu á nýsköpun.

Hann segir að skilvirkt fiskveiðistjórnunarkerfi sé lykilatriði að verndun og hámörkun á afrakstri fiskistofna. Kerfi sem hefur innbyggðan hvata til að hámarka verðmæti veidds afla og hvata til að veiðar séu stundaðar með sem lægstum tilkostnaði.

„Hvað gerðist á næstu 35 árum eftir að við tókum upp kvótakerfið. Við náðum sömu verðmætum fyrir þorskafurðirnar þrátt fyrir helmingi minni afla. Gríðarlegar tækniframfarir urðu í veiðum og vinnslu. Samstarf sjávarútvegs- og tæknifyrirtækja jókst og bláa hagkerfið varð að veruleika,“ sagði Finnbogi og tók dæmi.

Tvöföldun verðmæta

Árið 1981 voru 75% af þorskinum flutt sem heill fiskur eða frosin flök en árið 2011 var 75% flutt út sem annað en frosin flök eða heill fiskur. Verðmætin fóru úr því að vera 1.800 dollarar á tonn af þorski í 3.700 dollarar á tonn – verðmætin tvöfölduðust.

„En hvernig var þróunin á 35 ára tímabili áður en kvótakerfið var tekið upp. Við jukum verðmætið fyrst og fremst með því að færa út landhelgina en það voru ekki miklar byltingar í togaraútgerð þar til skuttogararnir komu, þó ákveðnar tækninýjungar hafi komið til. En nánast allar tækninýjungar komu erlendis frá, ef þær náðu hingað yfir höfuð,“ sagði Finnbogi.

Ágætt dæmi Finnboga dregur upp skýra mynd af þeim breytingum sem hafa urðu með tæknibyltingunni í fiskvinnslu. Í þróun í síldar- og loðnufrystingu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Árið 1992 þurfti 28 menn á vakt til að vinna 70 tonn á sólarhring í síldar- og loðnufrystingu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Árið 2005 þurft 12 menn á vakt til að vinna 400 tonn á sólarhring.

„Mannaflaþörfin minnkaði á þessum þrettán árum um 90%. Núna eru afköstin átjánföld miðað við árið 1991. Svipuð þróun er í veiðum á uppsjávarfiski. Áður þurfti sex skip til að afkasta því sem nýju uppsjávarskipin afkasta. Því þurfti áður 75 til 80 sjómenn en áhöfn nýju skipanna eru átta til tólf menn eftir veiðarfæri. Þróunin út á sjó er því svipuð,“ sagði Finnbogi en bæta má við að í vinnslunni í dag þarf 20 starfsmenn á vakt til að afkasta 900 tonnum í síldar- og loðnuvinnslu Síldarvinnslunnar.

Finnbogi var framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar árin 1986 til 1999.

Á leiðinni út á sjó

Árið 1996 var staðan sú í bolfiskvinnslunni í landi að unnin voru tólf kíló á manntíma og vinnslan öll á leiðinni út á sjó, sagði Finnbogi. „Launakostnaður var yfir 30% af tekjum, en þá kom bjargvætturinn. Það var flæðilínan frá Marel sem hafði í för með sér að afköst tvöfölduðust; sala á ferskum bitum og flökum stórjókst. Nú eru vatnsskurðarvélarnar að koma til sögunnar og afköstin í kringum 40 kíló á manntíma og stefnir yfir 50 kíló. Þó eru þessar tölur – tólf og 50 kíló – ekki sambærilegar því það er verið að vinna fiskinn miklu betur og verðmætari afurðir,“ sagði Finnbogi.

Nálægðin skiptir sköpum

Finnbogi sagði að þegar kemur að nýsköpun í sjávarútvegi þá skiptir sköpum að hafa nálægð við sjávarútvegsfyrirtækin.

„Það sem er spennandi er tenging nýsköpunarfyrirtækjanna við sjávarútveginn, og í mínum huga er þetta allt nátengt – þetta er ein heild, eða bláa hagkerfið þar sem við getum sótt út á við og gert okkur gildandi á alþjóðlegum mörkuðum,“ sagði Finnbogi sem býr og starfar í Rússlandi.

Rússar eru stærsta fiskveiðiþjóð í Evrópu með um fimm milljónir tonna upp úr sjó. Þar er hluta kvótans úthlutað sérstaklega til þeirra sem fjárfesta í skipum og vinnslu – 75% til skipa og 25% til vinnslunnar. Knarr er eitt af þeim fyrirtækjum sem tekur þátt í endurnýjun í Rússlandi – en Knarr er samstarfsverkefni sex fyrirtækja, eins og Fiskifréttir hafa fjallað ítarlega um.

„Knarr-félög koma að sex skipum af 34 sem hafa verið samþykkt. Einnig liggja fyrir samningar um uppbyggingu á tveimur stórum verksmiðjum; á Kurileyjum fyrir fyrirtækið Gidrostroy og á Kamchatka þar sem hönnuð er verksmiðja fyrir fyrirtækið Lenin Kolkhoz, en Finnbogi nefndi jafnframt nýja verksmiðju sem Valka kemur að við hönnun og tæknilausnir. Heildarviðskipti Knarr fyrirtækja eru um 100 milljónir evra í þeim samningum sem þegar liggja fyrir.

„Árangurinn byggir á samstarfi að mínu mati. Ég tel að það sem öllu máli skiptir er umgjörðin, við eigum frábæra sjómenn og afburðagott fiskvinnslufólk. En ef við sköpum rétta umgjörð eru engin takmörk fyrir því hvaða árangri er hægt að ná,“ sagði Finnbogi að lokum.