miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Marel kaupir Curio

23. október 2019 kl. 16:55

Kaupsamningurinn undirritaður. MYND/Marel

Marel hefur undirritað samning um kaup á 50% hlut í íslenska tæknifyrirtækinu Curio ehf.

Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn síðar á árinu að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Marel greinir frá.

„Marel og Curio eiga farsælt samstarf að baki við hönnun og framleiðslu heildarlausna fyrir viðskiptavini í fiskvinnslu víðsvegar um heim þar sem Innova vinnsluhugbúnaður Marel heldur utan um og tryggir samfellt flæði,“ segir á vef Marels. „Í samstarfi við Marel mun Curio koma til með að nýta alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel til þess að sinna viðskiptavinum enn betur.“

Þá segir að með vöruframboði Curio í flökun, hausun og roðflettingu geti Marel nú boðið viðskiptavinum heildarlausnir fyrir hvítfiskvinnslu. 

„Kaupin styrkja stefnu Marel um að vera leiðandi á heimsvísu í hátækni heildarlausnum fyrir kjúklinga- kjöt- og fiskvinnslu.“

Kaupin eru gerð í tveimur áföngum, 40% hlutur verður afhentur þegar skilyrði kaupsamnings hafa verið uppfyllt og 10% til viðbótar þann 1. janúar 2021. Marel eignast jafnframt kauprétt á eftirstandandi 50% hlut eftir fjögur ár. Elliði Hreinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Curio, mun áfram leiða fyrirtækið. Búist er við að rekstrarhagnaður Curio hafi jákvæð áhrif á EBIT framlegð fiskiðnaðar Marel við samstæðuuppgjör eftir þann 1. janúar 2021.

Það er stutt á milli stórfrétta úr rekstri Curio en fyrirtækið hlaut Nýsköpunarverðlaunin, sem afhent voru á mánudag.