

Undirritaður hefur verið tveggja ára samstarfssamningur á milli Marel og Íslenska sjávarklasans sem miðar að því að auka nýsköpun í sjávarútvegi og fiskvinnslu.
Frá þessu er sagt á heimasíðu Marel.
Samningurinn, sem var undirritaður fyrir nokkru síðan, hefur það að markmiði að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi, skapa ný viðskiptatækifæri og byggja sterkari tengsl á milli fyrirtækisins og klasans.
Fyrsti samningurinn
Þar segir að Marel er fyrsti tækjaframleiðandinn sem undirritar samstarfssamning af þessu tagi við Sjávarklasann. Samningurinn tiltekur hlutverk og ábyrgð beggja aðila til þess að sameiginleg markmið geti náðst til hagsbóta fyrir báða aðila.
Sjávarklasinn hýsir klasasamstarf rúmlega 60 hafsækinna fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum og stuðlar að fjölbreyttu samstarfi auk þess að efla tengsl við frumkvöðla og taka þátt í öflugum samstarfsverkefnum og stofnun nýrra fyrirtækja.
Ásamt Íslenska sjávarklasanum er starfrækt tengd starfsemi í tveimur sjávarklösum í Bandaríkjunum; í New England, Maine og New Bedford, Massachusetts. Jafnframt er unnið að stofnun sjávarklasa í Batsfjord, Norður-Noregi og í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna.