þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Markaðir opnast á vestursvæðinu

29. september 2018 kl. 12:00

Hilmar Guðmundsson, sölustjóri Sæplasts í Evrópu, og Sævaldur J. Gunnarsson, sölustjóri í Rússlandi, á básnum sem Sæplast deildi með Kapp ehf. MYND/GUGU

Sæplast sér mikla möguleika á sölu í Rússlandi

„Það er mjög mikið um að vera í Rússlandi og það er ástæðan fyrir því að við ákváðum að taka þátt í sýningunni hér í Pétursborg,“ segir Hilmar Guðmundsson, sölustjóri Sæplasts í Evrópu og Asíu sem sá um bás fyrirtækisins ásamt Sævaldi J. Gunnarssyni, sölustjóra í Rússlandi.

gugu@fiskifrettir.is

Sæplast hefur verið inni á rússneska markaðnum með kör í mörg ár. Austur-Rússland hefur verið stór markaður fyrir Sæplastkör í yfir 20 ár. Fyrirtækið hefur líka náð fótfestu í Murmansk og á Moskvu-svæðinu. Nú eru markaðir að opnast einnig á vestursvæðinu með uppbyggingunni í fiskiskipaflotanum og vinnslunni þar.

„Við verðum varir við áhuga rússneskra fyrirtækja sem hafa haft samband við okkur. Undanfarin tvö til þrjú ár höfum við líka haft meira af þeim að segja á öðrum sjávarútvegssýningum. Við erum almennt að sjá meiri eftirspurn frá þeim. Þeir virðast horfa mjög til Íslands með alls kyns tækni og íslenskar lausnir þótt Noregur og önnur lönd séu líka inni í myndinni,“ segir Sævaldur.

Sæplast hefur framleitt kör í 34 ár og náð að skapa sér traust nafn á þessum markaði. Hilmar segir að fyrirtækið sé að selja lausnir. Söluvaran í sjávarútvegi snýst að miklu leyti um 460 lítra kör og 660 lítra.

Vilja grynnri ker

„Rússarnir eru líka að horfa dálítið á 340 lítra ker sem er lægra en 460 lítra en í sama fótspori. Úti á sjó vilja þeir hausa fiskinn og bjóða upp á „head and gutted“. 340 lítra kerið fer vel með þann fisk því það er minni þrýstingur á hann. Hausinn ver fiskinn annars mikið fyrir þrýstingi í venjulegum körum. Eitt fyrirtæki hérna hefur prófað grynnri körin og segir þau koma vel út. Fyrirtækin hérna eru risastór og því eftir miklu að slægjast. Þessi tiltekni aðili, fari hann þessa leið, þarf 2.000 ker,“ segir Sævaldur.

Sæplast á Íslandi getur framleitt 220-250 ker á sólarhring. Sæplast samsteypan framleiðir ker í verksmiðjum sínum á Íslandi, Spáni og Kanada. Samanlagt framleiðir fyritækið yfir 100.000 kör á ári af margvíslegum tegundum og af mörgum stærðum.

Hilmar segir að auk Íslands, sé Noregur einn stærsti markaður Sæplasts. Sæplast er með stórt vöruhús í Noregi og söluskrifstofu og er allri Skandinavíu þjónað þaðan. Sæplast á einnig helming í fyrirtækinu iTUB keraleiga sem hóf starfsemi sína  í Noregi en er nú komin um gjörvalla norðanverða Evrópu.

„Við höfum fyrir talsverðu náð góðri markaðsstöðu í Vestur-Evrópu og núna eru framundan Rússland og Eystrasaltsríkin. Meðal annars þess vegna erum við á þessari sýningu og höfum miklar væntingar,“ segir Hilmar.

Síðustu ár hefur Sæplast selt þúsundir kera til Rússlands. Fyrirtækið sér fram á mikinn vöxt í landinu. „Við erum með markaði þar sem við höfum séð mjög skjótan vöxt, einkum í Norðaustur-Evrópu. Þar eru markaðir sem hafa verið litlir upp í það að taka mörg þúsund kör á ári. Sveiflurnar eru miklar og prósentuaukning milli ára segir ekki alla söguna. Við getum selt einum viðskiptavini 3.000 ker í einum samningi en svo bætir hann kannski við sig einungis 1 þúsund kerum fjórum árum seinna. Varan okkar endist nefnilega alltof vel,“ segir Hilmar og brosir.