föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mat á ýsustofninum í Barentshafi stórhækkað

28. maí 2015 kl. 15:18

Ýsa

Norskir útvegsmenn vilja kvótaaukningu strax.

Hrygningarstofn ýsu í Barentshafi er nú metinn 340.000 tonn eða tvöfalt stærri en áður var álitið. Þetta gerðist við endurskoðun á aðferðum við stofnstærðarmat sem fram fór hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES), þar sem þorskur, ýsa og loðna voru til umræðu. 

Frá þessu er skýrt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Hinir sterku árgangar frá 2004-2006 virðast vera enn sterkari en áður hefur verið álitið. ICES hefur ekki endurskoðað kvótaráðgjöf sína fyrir yfirstandandi ár en ráðgjöfin fyrir ýsu og aðra botnfiskstofna í Barentshafi fyrir árið 2016 verður tilkynnt 12. júní næstkomandi.

Samtök norskra útvegsmanna (Fiskebåt) leggja til að ýsukvótinn verði aukinn strax á þessu ári. Þau benda á að mikill meðafli af ýsu hafi þegar í ár gert mörgum fiskiskipum mjög erfitt fyrir með tilliti til kvótastöðu þeirra. Margir óttist að þessi vandi verði enn meiri þegar líður að hausti. Samtökin vekja athygli á því að samkvæmt samningum við Rússa sé hægt að endurskoða kvótana í Barentshafi á þessu ári ef það er gert fyrir 1. júlí n.k. og hin breytta aðferð við stofnmatið á ýsu gefi til kynna að unnt hefði verið að ákveða ýsukvótann í ár 25% hærri en raunin varð.