sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Með 50% loðnumarkaðarins í Japan

6. júní 2018 kl. 07:10

Frá einn af verksmiðjum Okada Suizan í Japan.

Góður árangur af eignarhlut Vinnslustöðvarinnar í Okada Suisan

Sala Vinnslustöðvarinnar á uppsjávarfiski til Asíu hefur stóraukist eftir að fyrirtækið keypti hlut í japanska sölufyrirtækinu Okada Suisan fyrir einu ári. Vinnslustöðin hafði ekki áður verið í viðskiptum við Okada Suisan. Binni segir að hugmyndin að baki kaupunum hafi verið sú að stíga lengra inn á markaðinn og öðlast meiri og dýpri þekkingu á honum.

„Okada Suizan er fjölskyldufyrirtæki staðsett syðst í Japan í Yamaguchi. Það var stofnað 1966 og afabarn stofnandans stýrir því núna. Okada Suizan rekur þrjár verksmiðjur í Yamaguchi, eina í Hokkaido og eina í Dalian í Kína. Auk þess er það í verktakasamtarfi við þrjár verksmiðjur í Kína, eina í Tælandi og aðra í Indónesíu. Okada Suizan hóf þurrkun á loðnu árið 1970 og innflutning á óflokkaðri loðnu árið 2000 sem okkur hefur alltaf verið í nöp við hér í Vestmannaeyjum. Verð á óflokkaðri loðnu hefur alltaf verið mun lægra en á flokkaðri. Þeir nýttu ódýrt vinnuafl heima fyrir til þess að handflokka loðnuna í stað þess að kaupa vélflokkaða loðnu af okkur. Með þessu viðskiptamódeli þróuðu þeir nýja vöru inn á japanska markaðinn sem er loðnuhængur og áður var hent. Þeim tókst að skapa nýjan markað í Japan fyrir hæng sem stækkaði um leið heildarmarkaðinn. Þeir selja 4-5.000 tonn á hverju ári af loðnuhæng,“ segir Binni.

Svipað var uppi á teningnum annars staðar í heiminum árið 2003 þegar Vinnslustöðin framleiddi of mikið af loðnuhrognum og neyddist til að selja stóran hluta á afar lágu verði til fyrirtækis í Hvíta-Rússlandi. Upp úr þessu varð til loðnuhrognamarkaður í Austur-Evrópu sem núna er Vinnslustöðinni mjög mikilvægur. Loðnuhrognamarkaðurinn stækkaði úr 2.500-3.000 tonnum í allt að 15.000 tonna markað.

Loðnumarkaðurinn í Japan er um 25.000 tonn á ári og Okada Suizan er með um helmingshlutdeild í honum. Fyrirtækið þarf mun meiri fisk en Vinnslustöðin getur framleitt og hefur keypt af flestöllum loðnuframleiðendum á Íslandi. Fyrirtækið selur mest til verslanakeðjunnar 7-11 sem rekur mörg þúsund verslanir í Japan.

Með eignarhaldinu er Vinnslustöðin hins vegar í þeirri stöðu að hafa aðgang að sölukerfi Okada Suizan og getur þess vegna komið öðrum íslenskum vörum á markað í Japan. Vinnslustöðin hefur sömuleiðis aðgang að vöruþróun Okada Suizan og getur hugsanlega framleitt vöru, til dæmis í Marhólmum, og selt inn á Ameríku- og Evrópumarkað.

Okada Suizan hóf framleiðslu á makríl frá Vinnslustöðinni á síðasta ári og framleiddi úr um það bil 1.600 tonnum.