föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Með fisk í farangrinum

guðsteinn bjarnason
22. júlí 2019 kl. 15:25

Haldlagður smyglvarningur í Noregi. MYND/Tolletaten

Þýskir ferðamenn gripnir í Noregi

Fimm þýskir ferðamenn voru stöðvaðir í Noregi í síðustu viku þar sem þeir reyndu að smygla fiski úr landi. Alls voru þeir gripnir með 205 kíló af fiski umfram leyfilegt magn, sem þeir ætluðu að flytja úr landi með bílaferju frá Ósló til Þýskalands.

Nokkrum dögum áður höfðu tveir þýskir ferðamenn verið gripnir með 80 kíló umfram leyfilegt magn. Þeir fengu sekt upp á 32 þúsund norskar krónur, eða um 480 þúsund krónur íslenskar, en fimmmenningarnir fyrrnefndu fengu sekt upp á 81 þúsund krónur norskar, sem jafngildir um það bil 1,2 milljónum íslenskra króna.

Ferðafólkið hafði verið á frístundaveiðum á vegum ferðaþjónustufyrirtækja í Noregi, en brögð hafa verið að því á síðustu misserum að reynt sé að smygla afla úr slíkum veiðum úr landi.

Í byrjun árs 2018 voru reglur um þær hertar og hámark sett á leyfilegan útflutning, þannig að hver ferðamaður megi einungis taka 20 kíló með sér úr landi. Í apríl síðastliðnum voru svo sektirnar hækkaðar verulega.

Við það tækifæri sagði Harald T. Nesvik sjávarútvegsráðherra: „Þetta eru bæði efnhagsbrot og umhverfisbrot sem grafa undan eftirliti með því sem tekið er af auðlindum hafsins og eyðileggur fyrir þeim hluta ferðamannaveiðanna sem taka sig alvarlega.“

Smygl á fiski úr landi hefur angrað norsk stjórnvöld nokkuð lengi. Árið 2017 var lagt hald á 11 tonn af fiski sem smygla átti úr landi, og á árinu 2018 var lagt hald á 6,5 tonn og það sem af er þess ári er búið að leggja hald á meira en 7 tonn. Megnið af þessum fiski var búið að vinna í flök og pakka í kassa.