miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Með í maganum vegna faraldursins

Guðsteinn Bjarnason
23. ágúst 2020 kl. 09:00

Fiskvinnsla Íslandssögu á Suðureyri við Súgandafjörð. MYND/Aðsend

Fiskvinnslan Íslandssaga er partur af klasasamstarfi á Vestfjörðum.

Óðinn Gestsson framkvæmdastjóri segir framleiðsluna og útflutninginn hafa gengið vel í sumar, en í nokkrar vikur stöðvaðist starfsemin að stórum hluta vegna covid-19.

„Þetta hefur gengið mjög vel frá miðjum maí þegar fór að slakna á covidinu, sérstaklega í Evrópu,“ segir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri.

„Það má segja að Ameríka hafi verið nokkuð stöðug en það dró úr pöntunum á tímabili. Það var kannski í tvær til þrjár vikur sem þetta stoppaði alveg. Evrópa stoppaði líka að mestu leyti og það var ekki gott. Svo kviknaði á þessu aftur báðu megin og smá jókst. Evrópa er búin að vera mjög öflug í sumar og það má segja að það sé búið að vera eðlilegt alveg síðan í maí.“

Töluverð óvissa er samt um framhaldið og Óðinn segir að vissulega sé hann með í maganum vegna faraldursins.

„Hún er helvíti skæð þessi flensa, maður.Mér líður ekkert rosalega vel með það, en auðvitað vonar maður það besta. Maður er náttúrlega aðeins með í maganum yfir þessu. Þetta er heldur ekki einskorðað við Ísland þetta ástand, þannig að hvað ef það fer að verða hertar aðgerðir í Evrópu? Bandaríkin virðast vera eins. Þar hefur lítið breyst finnst mér, þar eru ennþá margir að sýkjast þótt það færist eitthvað milli ríkja eins og gengur.“

Strandveiðin gengið vel

Hann segir framleiðsluna hafa gengið mjög vel allan þennan tíma. Aflinn á strandveiðinni hafi verið þokkalega góður og nokkurn veginn staðið undir því sem flytja þurfti út.

„Strandveiðiaflinn er náttúrlega undirstaðan í þessu hjá okkur. Þetta skiptir alla vega verulegu máli fyrir okkur, mjög miklu máli.“

Vinnsluhús Íslandssögu er ekki stórt, en er að vinna úr um það bil 80 til 95 tonnum af hráefni á viku. Um helmingurinn af því fer til Bandaríkjanna en hinn helmingurinn til Evrópu, mest til Frakklands en minni samningar eru inn á Belgíu og Lúxemborg. Um þriðjungurinn af því sem selt er til Evrópu fer með flugi en hitt með skipi tvisvar í viku. Til Bandaríkjanna er allt flutt með flugi.

„Magnið sem við vinnum á ári er um það bil sama magnið og er að koma upp úr þessari höfn, það hafa verið svona 3500 upp í 5000 tonn. Við höfum verið á því rólinu.“

Tveir áratugir

Fyrirtækið Íslandssaga var stofnað á Suðureyri 6. desember 1999, eða fyrir nærri 21 ári. Fyrirtækið á í nánu samstarfi við flest helstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum.

„Við erum í klasasamstarfi með fyrirtækjunum hérna á Vestfjörðum. Það eru bæði rækjuvinnslur, hvítfiskvinnslur og hausaþurrkun, og árið 2014 stofnuðum sameiginlegt sölufélag, Iceland Westfjord Seafood, sem sér um sölu á öllum blokkarafurðurm sem koma frá þessum fyrirtækjum. Síðan sér þetta fyrirtæki um sölu á allri ferskfiskvöru til Ameríku, og þar erum við öll inni sem erum í þessum ferska útflutningi, bæði Oddi á Patreksfirði, Hraðfrystihúsið Gunnvör og svo Íslandssaga. Við flytjum ekki með neinum öðrum til Ameríku en okkar félagi.“

Yfir árið hafa starfað um 40 starfsmenn hjá fyrirtækinu, eða rúmlega það.

„Þetta var svolítið snúið hérna í covid. Þá þurfti nú eiginlega bara að svæfa fyrirtækið. Við drógum þá bara úr veiðum og vinnslu og dúlluðum hérna við svona 10 til 12 tonn á dag í staðinn fyrir 18 eða eitthvað svoleiðis. En við fórum norðan við núllið í gegnum það. Það lukkaðist alla vega þá, kannski hefur gengið hjálpað til líka. Við jukum síðan við okkur fólki í júní, júlí og fram í miðjan ágúst. Tókum við skólafólki, svona 15 manns, og fórum upp í svona 50 til 55 manns. Það var gott fyrir báða, bæði skólafólkið og okkur.“

Byggðastofnunarkvóti

Óðinn segir framleiðsluna þó ekki eingöngu fengna frá smábátum.

„Við erum innan gæsalappa með smábáta eingöngu en þó erum við tengdir með Byggðastofnun við byggðastofnunarkvóta sem kallaður er, og látum hann á togarnn hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvör sem hjálpar okkur í gegnum erfiða tímann þegar veðrin eru erfiðust. Þá fáum við aðgang að þeim kvóta og það er okkar ríkisstyrkur í þessu. Það eru ákveðnar reglur sem gilda um það og þeir verða þá að koma með sitt mótframlag á móti og þeir gera það svikalaust. Það ber engan skugga á það samstarf.“

Þessi samningur við Byggðastofnun var gerður vegna Súgandafjarðar, en síðastliðið vor gerði sölufélagið West Seafood annan samning við Byggðastofnun vegna Flateyrar í kjölfar áfallsins þar síðasta vetur þegar snjóflóð ruddi burt stórum hluta bátaflotans.

„Þar lofuðum við að efna til vinnslu á sæbjúgum og þurrkuðum afurðum fyrir gæludýr, úr roði og beinum og marningi og svona dóti sem hentar vel í það. Það verkefni er að fara að stíga sín fyrstu skref núna. Covid hafði líka áhrif á þann undirbúning hjá okkur. Við erum búnir að fjárfesta þar, ekki fiskvinnslan Íslandssaga heldur aðilar sem eru saman í því. Klofningur kemur þar inn og við komum inn í það með einhverja peninga líka. Síðan Aurora Seafood sem hefur verið við veiðar á sæbjúgum.“

Keypt var skip til þessa verkefni, Helgi SH sem nú heitir Tindur ÍS.

„Hann veiðir þá sæbjúgu og þennan byggðastofnunarkvóta Flateyrar og skilar honum til vinnslu á Suðureyri. Við stefnum að því að vera með 20 til 25 vinnustað innan 2-3 ára á Flateyri í því að vinna úr sæbjúgum og aukaafurðum fyrir gæludýr.“