mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Með samvisku fyrir umhverfinu

Guðsteinn Bjarnason
9. janúar 2019 kl. 12:00

Nýi hlerinn hefur verið prófaður í nokkrar vikur. MYND/Kristinn Gestsson

Trollhlerar áfram í stöðugri þróun.

Thyboron hefur í samstarfi við Hampiðjuna undanfarnar vikur verið að prófa nýja semi-pelagic trollhlera, sem eru mun léttari en eldri gerðir, spara þar með orku og eru umhverfisvænni.

„Þetta eru kraftmeiri hlerar og þeir eru mjög léttir þannig að þú sparar orku,“ segir Kristinn um nýja semi-pelagic hlera sem Hampiðjan hefur verið að prófa í samstarfi við Thyboron undanfarnar vikur. Hann segir þessa nýju hlera því vera umhverfisvænni en þá sem áður hafa verið notaðir.

„Þessi þróun gengur öll út á það að spara orku, eðlilega. Bæði eru menn að hugsa um að spara og svo eru menn bara með samvisku fyrir umhverfinu. Við lifum ekki á landinu ef við eyðileggjum þetta allt, og þegar umhverfismálin eru annars vegar er allur heimurinn undir. Þannig að hleraframleiðendur og netaframleiðendur eru alltaf að reyna að þróa þetta betur. Við reynum að minnka viðnám í trollunum og gera þau betri þannig að þau rifni minna, þá verður lítið eftir af netum á botninum.“

Kaldbakur og Drangey

Prófanir hafa staðið yfir á þessum nýju hlerum síðan í nóvember. Búið er að reyna þá bæði í Kaldbak EA og Drangey SK.

„Kaldbakur frá Akureyri fór þrjá túra, var með þetta frá miðjum nóvember og fram í desember, og svo eru þeir núna um borð í Drangey,“ sagði Kristinn þegar Fiskifréttir ræddu við hann fyrir jól.

Þetta eru svonefndir semi-pelagic hlerar, sem kannski mætti kalla svifhlera, en Kristinn segir óþjált að nota útlenska orðið.

„Við erum alltaf að auglýsa eftir íslensku orði fyrir þetta, höfum ekki fundið neitt sem lýsir þessu almennilega. En þetta eru langmest seldu hlerarnir hjá okkur nú orðið, framleiddir hjá Thyboron í Danmörku.“

Á svifi yfir botninum

Þessir hlerar snerta botninn mun minna en hefðbundnir hlerar á botnvörpum. Megnið af tímanum eru þeir á svifi yfir botninum, svona þrjá til fimm faðma frá botninum yfirleitt.

„Aðstæður á sumum stöðum eru reyndar þannig að þú færð bara ekki fisk nema trollið sitji vel. En ég myndi segja að í um 80 prósent tímans séum við ekki að draga hlerana við botninn,“ segir Kristinn, en tekur fram að þar styðjist hann bara við eigin reynslu.

„Kosturinn við þessa hlera er líka sá að við þurfum ekki að nota nein lóð á gröndurunum, sem við þurftum að gera þegar við vorum að nota bara hefðbundna botntrollshlera í þetta.“

Hann segir að menn hafi byrjað á því, líklega um 2009 eða 2010, að nota hefðbundna flottrollshlera við botnfiskveiðar, en það hafi ekki verið gert að ráði nema í um tvö ár eða svo.

„Þá voru menn með hlerana uppi í sjó en trollið samt í botni, og vorum þá með lóð á gröndurunum til að halda trollinu niðri. Við losnuðum ekkert alveg við umhverfisáhrifin því lóðin fóru náttúrlega í botninn, en áhrifin voru samt ekki eins mikil og af hlerunum. Svo voru þau náttúrlega að skapa slysahættu um borð í skipunum, þannig að þegar menn fóru yfir í það að nota þessa semi-pelagic hlera þá skiptu menn svolítið skart yfir. Flestir togaranna eru með þessa hlera núorðið.“