laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mega skipta á loðnukvótum við Ísland og í Barentshafi

21. janúar 2014 kl. 11:00

Norskt uppsjávarskip.

Leiðir til sparnaðar og bættrar umgengni um auðlindina.

Norski sjávarútvegsráðherrann hefur fallist á beiðni norskra útvegsmanna um að hringnótaskip megi skipta á loðnukvótum við Ísland og í Barentshafi. 

Þetta þýðir með öðrum orðum að útgerðir tveggja skipa geta gert með sér samning um að annað skipið veiði kvóta beggja við Ísland og hitt veiði kvóta beggja í Barentshafi.  Þar með næðist fram aukin arðsemi því kvótar norska skipa á báðum hafsvæðum eru litlir að þessu sinni. Skammtur hvers norsks hringnótabáts  í Barentshafi er 300-400 tonn og við Ísland og Jan Mayen um 600 tonn, að því er fram kom í Fiskeribladet/Fiskaren í síðustu viku .

Á vef samtaka norskra útgerðarmanna segir að flotinn geti trúlega sparað 2-3 milljónir lítra af dísilolíu með þessum kvótaskiptum eða sem svarar 10-15 milljónum norskra króna (190-285 milljónum ISK) auk þess sem þetta muni stuðla að minna brottkasti. 

Kvótaskipti af þessu tagi eru ekki almennt leyfð í norskum fiskveiðum en gerð er undantekning til reynslu að þessu sinni.