föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Megnið af undirmálsþorski sleppur undir vörpuna

28. september 2009 kl. 15:56

Nýlega er lokið leiðangri á r/s Árna Friðrikssyni vegna rannsókna á kjörhæfni fiskivörpu. Að þessu sinni var mælt hve stórt hlutfall af fiski sleppur undir vörpuna. Þetta var gert með því að setja poka, sem voru einskonar smávörpur, fyrir aftan grjóthopparana (fótreipið) og veiða þannig allan fisk sem annars hefði sloppið undir vörpuna.

Þessi uppsetning hefur þó þann ókost að aðeins er hægt að draga á rennisléttum botni svo að safnpokarnir tapist ekki. Niðurstöðurnar sýna því aðeins hvernig varpan veiðir á góðum botni, en reikna má með því að hærra hlutfall af fiski sleppi undir ef dregið væri á ósléttum botni. Bæði pokar og varpa voru útbúnir með smáum riðli til að allur fiskur óháð stærð yrði fangaður.

Flestar tegundir sleppa að einhverju marki en nokkur munur er á því hvort það sé háð stærð fisksins eða ekki. Atferli þorsks er greinilega háð stærð þar sem smáþorskur sleppur undir í mun meira mæli en stærri þorskur. Þorskur sem er rétt rúmlega 50 cm virðist hafa 50% líkur á því að sleppa undir eða lenda inn í vörpuna. Líkur á því að hann veiðist eykst síðan með stærð en minnkar að sama skapi ef þorskurinn er smærri.

Skarkoli (rauðspretta) hegðar sér ekki á sama hátt og þorskur þar sem rúmlega 30% í öllum lengdarflokkum sleppur undir grjóthopparana. Skrápflúra sýnir hins vegar svipaða hegðun og þorskur þar sem minnsti fiskurinn sleppur undir en sá stærri fer inn í trollið. Í fljótu bragði virðast vera skörp skil hjá ýsu þar sem aðeins ýsa á fyrsta ári fer undir en stærri ýsa fer nánast öll upp í poka. Meirihluti skötusels og tindaskötu sleppur undir en nánast allur karfi og lúða lendir í vörpupokanum.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar, HÉR