fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Megum ekki við svona æfingum

6. júní 2011 kl. 17:06

Gunnbjörn ÍS. (Mynd: Guðm. St. Valdimarsson).

Höfum keypt hvert einasta kvótakíló með tilheyrandi lántökum, segir framkvæmdastjóri Birnis í Bolungarvík.

Guðbjartur Jónsson framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Birnis í Bolungarvík segir ljóst að starfsemi fyrirtækisins dragist umtalsvert saman, verði kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar að lögum. Birnir gerir út togarana Gunnbjörn og Valbjörn og á auk þess meirihlutann í rækjuverksmiðjunni Kampa á Ísafirði.

„Ég get ekki séð að þessir svokölluðu pottar komi okkar fyrirtæki til góða, þannig það er verið að færa aflaheimildir frá okkur til einhverra annarra,” segir Guðbjartur.

Hjá Kampa og Birni starfa samtals um 70 manns, en unnið er á tvöföldum vöktum í rækjuverksmiðjunni.

„Veiðiheimildir okkar eru um 600 þorskígildistonn. Útgerð hófst 1992 og við höfum keypt hvert einasta kíló af heimildum á almennum markaði með tilheyrandi lántökum. Það er því eðlilegt að stjórnendur fyrirtækja haldi að sér höndum í fjárfestingum þegar slíkar breytingar á kerfinu eru boðaðar. Atvinnulífið hérna á Vestfjörðum hreinlega má ekki við svona æfingum út í loftið."

Sjá nánar á vef LÍÚ.