mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meiri síld innan lögsögu en áður

28. maí 2014 kl. 15:53

Síld

Heildarmagnið í íslenska hluta leiðangursins mældist 1,7 milljónir tonna.

Í síðustu viku lauk árlegum leiðangri Hafrannsóknastofnunar á R/S Árna Friðrikssyni með það meginmarkmið að kanna magn og útbreiðslu kolmunna og norsk-íslenskrar síldar fyrir vestan, sunnan og austan land. Leiðangurinn er hluti af heildarathugun á þessum fiskistofnum sem rannsóknaskip frá Noregi, Færeyjum, Evrópusambandinu og Rússlandi taka þátt í auk Íslands. 

Töluvert meira magn mældist af síld innan íslensku landhelginnar í ár en í leiðöngrum síðustu tveggja ára eða um 1,5 milljón tonn í samanburði við um 0.5 milljón tonn árin 2012 og 2013. Heildarmagn síldar mælt í íslenska hluta leiðangursins var rúmlega 1,7 milljón tonn sem er svipað og síðustu tvö ár eða um 1,5 milljón tonn.

Suðlægari útbreiðsla

Norsk-íslenska síld var að finna á stóru svæði í Austurdjúpi. Mesti þéttleiki síldar á yfirferðarsvæði leiðangursins var í austasta hluta landhelginnar austur af landinu. Útbreiðslumörkin til vesturs voru á svipuðum slóðum og í leiðöngrum síðustu ára.

Þannig var síld að finna í syðsta hluta kalda Austur Íslandsstraumsins vestur að 14°V, en norðan við 66°N takmarkaði kaldsjórinn útbreiðsluna til vesturs. Síldin var jafnan nokkuð jafndreifð á 200-400 m dýpi, en einnig fannst hún grynnra að nóttu til. Þótt hér sé aðeins um að ræða hluta niðurstaðanna af þessum sameiginlega leiðangri benda þær til suðlægari útbreiðslu síldar en undanfarin ár á þessum árstíma.

Stofninn á niðurleið

Um 92% af síldinni sem mældist í leiðangrinum var 8 ára og eldri fiskur. Þessi aldursdreifing er afleiðing þess að sterkir árgangar hafa ekki komið í stofninn síðan 2004. Því hefur stærð stofnsins verið á niðurleið síðan árið 2009 og fyrirséð er að sú þróun mun halda áfram eða þar til sterkir árgangar koma inn í stofninn og þeir ná veiðanlegum aldri.

Leiðangurinn er samstarfsverkefni Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga, Rússa og Evrópusambandsins og nær yfir útbreiðslusvæði síldarstofnsins og megin uppeldissvæði kolmunnastofnsins. 

Hrygningarstofn og aflamark

Alþjóðahafrannsóknarráðið metur hrygningarstofn norsk-íslenskrar síldar nú vera um 4,1 milljón tonn og er aflamark Íslendinga tæp 62 þúsund tonn fyrir árið 2014 samkvæmt samkomulagi milli ríkjanna sem nýta stofninn, ef frá eru taldar Færeyjar. 

Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar.