

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR eru 68% kjósenda Samfylkingarinnar fylgjandi svokallaðri samningaleið í sjávarútvegi. Þá mælist fylgið við samningaleiðina 75,2% á meðal kjósenda VG. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem MMR vann fyrir LÍÚ dagana 11. -14. janúar sl. Í könnuninni lýstu 65,4% allra svarenda sig mjög eða frekar hlynnta því að fara þessa leið en 34,6% sögðust frekar eða mjög andvígir henni.
Stuðningur við samningaleiðina hefur vaxið jafnt og þétt frá því starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða lagði fram skýrslu sína í haust, segir í frétt á vef LÍÚ. Í könnun sem MMR vann fyrir LÍÚ í október sl. voru 51,8% fylgjandi samningaleiðinni en í sambærilegri könnun sem framkvæmd var í nóvember mældist 57,4% stuðningur við samningaleiðina.
Spurningin sem lögð hefur verið fyrir þátttakendur í þessum þremur könnunum hljóðar þannig: „Meirihluti starfshóps, sem sjávarútvegsráðherra skipaði til þess að endurskoða lög um stjórn fiskveiða, lagði í byrjun september 2010 til að farin yrði svokölluð samningaleið í sjávarútvegi. Samningaleiðin byggir á því að ríkið geri samninga við núverandi handhafa fiskveiðiheimilda um veiðiheimildir gegn gjaldi. Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að þessi leið verði farin?"
Í könnuninni nú fengust svör frá 890 manns en 40% svarenda tóku ekki afstöðu til spurningarinnar. Það er sama hlutfall og í fyrri könnununum tveimur.