mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meirihlutinn vill lækka veiðigjöld

Svavar Hávarðsson
1. mars 2018 kl. 06:00

Ef aðeins er horft til þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Gallup fyrir Fiskifréttir eru 68% aðspurðra því fylgjandi að lækka gjöldin á litlar og meðalstórar útgerðir en 32% því andvíg.

Afdráttarlaus meirihluti aðspurðra eru því fylgjandi að lækka veiðigjöld hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Fiskifréttir.

Grunnniðurstaða könnunarinnar er sú að 49% aðspurðra eru því fylgjandi að lækka veiðigjald á litlar og meðalstórar útgerðir; 14,2% segjast vera því mjög fylgjandi en 34,4% frekar fylgjandi. Hin hliðin á peningnum er sú að 23% segjast slíkum breytingum andvíg; 12,9% er því frekar andvíg og 10,1 taka slíkt ekki í mál. Alls eru það 28% aðspurðra sem kæra sig kollótta um slíkar breytingar.

Ef aðeins er horft til þeirra sem tóku afstöðu eru 68% aðspurðra því fylgjandi að lækka gjöldin á litlar og meðalstórar útgerðir en 32% því andvíg.

Málið kviknar

Umræðan um veiðigjöld kviknaði af fullum krafti síðastliðið sumar þegar reglugerð þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um veiðigjald fyrir yfirstandandi fiskveiðiár var birt. Þá var staðfest, sem menn höfðu raunar löngu vitað, að miðað við áætlað aflamark að gjöldin yrðu ríflega helmingi hærri en á fyrra ári; um það bil ellefu milljarðar króna, sem er hækkun um sex milljarða frá yfirstandandi fiskveiðiári. Allt byggir þetta á reiknireglu veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 sem aftur byggir á gögnum Hagstofu Íslands frá  árinu 2015. Var bent á að þessi mikla hækkun muni koma hart niður á fjölmörgum útgerðum sem væru misjafnlega í stakk búnar til að standa undir því.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var í lok nóvember boðuð endurskoðun laga um veiðigjöld og jafnframt talað um mikilvægi þess að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir. Það var svo í byrjun árs sem Morgunblaðið sagði frá því að endurskoðun stjórnvalda á veiðigjöldum hefði það að markmiði að lækka gjöld­in á lít­il og meðal­stór sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki. Formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna, sagði að sú vinna væri hafin í ráðuneytinu og ætti að ganga hratt fyrir sig. Sagði hún breytinguna vel rúm­ast inn­an orðalags stjórnarsátt­mál­ans um endurskoðun.

Þegar málið var borið undir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þennan dag, 2. janúar, staðfesti hún upplýsingarnar en sagði jafnframt að þetta gæti einnig leitt til hækkunar veiðigjalda á stærri fyrirtækin. Ekkert væri þó ákveðið. Lilja Rafney ítrekaði hins vegar á þingfundi í síðustu viku að undirbúningur við end­ur­skoðun veiðigjalda væri hafinn í sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­inu, og talaði skýrt um að ástæðan væri staða lítilla og meðalstórra fyrirtækja – ekki stórútgerðarinnar. Auk þess nefndi hún að áhyggjur margra sveitarfélaga á landsbyggðinni vegna hækkunar veiðigjaldsins væru miklar.

Lítið og stórt?

En hvaða fyrirtæki eru þetta – þau litlu og meðalstóru? Við þessari spurningu hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi ekki svar, að því að kemur fram í fréttum. Þegar málið reis sem hæst í janúar gátu aðrir sem spurðir voru ekki svarað því fortakslaust, en fjölmiðlar fengu þó þau svör frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að ef til vill megi ganga út frá því að stór útgerð væri með 4.000 þorskígildistonn eða meira. Ef sú mælistika er notuð eru stóru útgerðirnar rétt um tuttugu talsins – og eru jafnframt með eitt prósent af útgefnum aflaheimildum eða meira.

Í viðtali við Fiskifréttir sagði Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, það ekki þurfa að vera flókið að skilgreina ólíka flokka útgerðar þannig að hægt verði að þrepaskipta veiðigjaldinu.

Fáir borga

Það sem liggur hins vegar fyrir er að yfirgnæfandi meirihluti útgerða landsins greiðir einungis brot af heildarveiðigjöldum. Aðeins fjögur prósent veiðigjalda ársins 2016-17 komu frá 804 af 992 útgerðum. Þetta eru allt saman smærri útgerðir sem fá samtals ekki úthlutað nema samsvarandi lítið brot af aflaheimildum ársins. Þessar 804 útgerðir greiddu allar innan við eina milljón í veiðigjöld hver, að meðaltali um 219 þúsund krónur.

Hafa ber hugfast að áfram er þó í gildi sá almenni afsláttur af veiðigjöldum sem gagnast minni útgerðum helst. Allir fá 20% afslátt af fyrstu 4,5 milljónum álagðs veiðigjalds og 15% afslátt af næstu 4,5 milljónunum.

Á hinn bóginn greiddu tíu stærstu útgerðir landsins um helming allra veiðigjalda ársins, og 50 stærstu útgerðirnar greiddu um 87% heildarupphæðarinnar. Þetta samsvarar nokkurn veginn hlutdeild þeirra í úthlutun aflaheimilda ársins, því fimmtíu stærstu útgerðarfyrirtækin fengu úthlutað rúmlega 82% allra aflaheimilda.

Pólitík

Afstaða aðspurðra í skoðanakönnunni eftir pólitískum línum sýnir ólíkar áherslur til málsins. Kjósendur ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, eru margir jákvæðir fyrir því að veiðigjald verði lækkað á litlar og meðalstórar útgerðir. Mikill meirihluti sjálfstæðismanna eru því mjög eða frekar fylgjandi eða 66%. Á sama veg svarar 48% framsóknarfólks og 54% kjósenda Vinstri grænna. Aðeins kjósendur Miðflokksins taka álíka djúpt í árinni og sjálfstæðismenn, eða 62% sem er breytingunni mjög eða frekar fylgjandi. Afdráttarlausustu afstöðuna með þessari breytingu taka kjósendur Sjálfstæðisflokksins en 30% þeirra eru henni mjög fylgjandi.

Gagnvart því að lækka veiðigjaldið eru kjósendur Samfylkingarinnar hins vegar neikvæðastir – 40% eru frekar eða mjög andvígir slíku en aðeins fimm prósent mjög fylgjandi. Til samanburðar svarar aðeins fjögur prósent sjálfstæðismanna því til að standa alfarið gegn slíkri breytingu.

Kjósendur Pírata og Viðreisnar eru þó á svipuðum nótum og kjósendur Samfylkingarinnar, hvort sem litið er til þeirra sem eru jákvæðir eða neikvæðir gagnvart slíkri breytingu.

Þegar allt er talið dregst upp sú mynd að kjósendur ríkisstjórnarflokkana, auk Miðflokksins, teljist því helst fylgjandi að lækka veiðigjaldið en samfylkingarfólk, Píratar og kjósendur Viðreisnar standi þá frekar gegn því. Þó eru stórir hópar úr öllum þessum hreyfingum því fylgjandi að gefa þessi gjöld eftir að hluta.

Þegar horft er til búsetu aðspurðra kemur fram verulegur munur á afstöðu fólks á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Um fjórðungur tekur ekki afstöðu en ef aðeins er litið til þeirra sem afstöðu tóku eru 59% hlynnt lækkun veiðigjaldsins en 44% í borginni. Eins eru 28% á höfuðborgarsvæðinu andvíg lækkun veiðigjaldsins en 14% á landsbyggðinni.

Könnun Gallup var netkönnun, sem gerð var dagana 1. til 14. febrúar. Spurt var: Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) því að lækka veiðigjald hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum í sjávarútvegi? Úrtakið var 1.426 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup og þátttökuhlutfallið var 57,4%.