laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mest aflaverðmæti í Reykjavík

20. apríl 2011 kl. 11:00

Aflaverðmæti 2010 eftir landshlutum. (Graf af heimasíðu Fiskistofu)

Vestmannaeyjar eru í öðru sæti

Hlutfallslega mestum aflaverðmætum hefur á undanförnum árum verið landað í Reykjavík. Á síðasta ári var afla að verðmæti 23 milljarðar króna landað í Reykjavíkurhöfn, eða 16,7% af heildarverðmætum sjávaraflans árið 2010. Árið 2007 var hlutfall Reykjavíkur 14,1% af aflaverðmætunum. Þessar tölur sýna að Reykjavík hefur aukið hlutdeild sína í heildaraflanum nokkuð á undanförnum árum, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Næstmestum aflaverðmætum árið 2010 var landað í Vestmannaeyjum eða tæpum 13,7 milljörðum sem eru 9,9% af heildaraflaverðmætum landaðs afla á síðasta ári. Því næst kom Neskaupstaður með 11,6 milljarða eða 8,4% aflaverðmæta, Grindavík er með 10,1 milljarða. Næsta höfn þar á eftir, sem er Hafnarfjörður, er nokkru lægri eða með 4,7 milljarða, Akureyri er með 4,2 milljarða, Sauðárkrókur 4 milljarða, Rif með 3,8 milljarða, Sandgerði með 3,6 milljarða, Eskifjörður með 3,5 milljarða og Ísafjörður með 3,5 milljarða.

Ef horft er til landshluta þá var mestum aflaverðmætum landað í höfnum höfuðborgarsvæðisins en þau námu tæpum 28 milljörðum króna á árinu sem samsvara 20,2% aflaverðmæta 2010. Næst kemur Austurland með tæpa 25 milljarða. Skífuritið hér að ofan sýnir hlutfallslega skiptingu aflaverðmæta á milli landshluta.