sunnudagur, 20. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mest áhrif á viðskipti við Noreg og Japan

11. febrúar 2020 kl. 11:40

Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Japans dróst saman um rúma 4,6 milljarða króna á milli áranna 2018 og 2019. Jafngildir það samdrætti upp á tæp 53% að nafnvirði.

Hlutdeild stærstu viðskiptalanda Íslendinga með sjávarafurðir tók nokkrum breytingum á árinu 2019 frá fyrra ári, sem má fyrst og síðast rekja til loðnubrestsins.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi tóku upplýsingarnar saman og þar sést að talsverður samdráttur varð í útflutningi til þeirra landa sem flytja inn mikið af loðnuafurðum, en þar eru Noregur og Japan fremst í flokki. 

Þar segir að afurðirnar sem fluttar eru út til þessara tveggja landa eru afar ólíkar. Noregur er stærsta viðskiptaland Íslendinga með fiskimjöl og lýsi, enda ein öflugasta fiskeldisþjóð í heimi. Dróst útflutningur á sjávarafurðum til Noregs saman um rúma 4,9 milljarða króna á árinu 2019 frá 2018, eða sem nemur rúmum 23% að nafnvirði. Þetta skýrist, að nánast öllu leyti, af samdrætti í útflutningi á loðnu til Noregs. Fór hlutdeild Noregs í útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild úr 9,0% í 6,4% á milli áranna 2018 og 2019. Noregur var fimmta stærsta viðskiptaland Íslendinga á þann kvarða en var í fjórða sæti á árinu 2018.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Japans dróst saman um rúma 4,6 milljarða króna á milli áranna 2018 og 2019. Jafngildir það samdrætti upp á tæp 53% að nafnvirði. Fór hlutdeild Japans í útflutningsverðmæti sjávarafurða úr 3,7% í 1,6% á milli ára. Japan er stærsta viðskiptaland Íslendinga með frystar loðnuafurðir. Voru Japanir sextánda stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með sjávarafurðir á árinu 2019 en árið 2018 voru þeir í tíunda sæti.