miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mest flutt út af frystu

1. desember 2017 kl. 14:00

Verðmæti ferskra sjávarafurða á tonn aukist um 188%.

 Mest var flutt út af frystum afurðum árið 2016 líkt og síðastliðin 16 ár en 270.000 tonn af frystum afurðum voru flutt út á árinu, sem nemur 46,5% af heildarútflutningi sjávarafurða.

Frá árinu 2000 hefur útflutt magn af frystum afurðum aukist um 40% á meðan saltaðar afurðir hafa dregist saman um 46%. Einnig hafa mjöl- og lýsisafurðir dregist saman um 50%.

Fryst
Þegar útflutningsverðmæti eru skoðuð eftir afurðaflokkum sést að frystar afurðir skila mesta verðmæti, um 115,6 milljörðum króna á árinu 2016, sem nemur um 50% af heildarútflutningsverðmæti. Þrátt fyrir að magn frystra afurða hafi aukist um 40% frá árinu 2000 hefur það einungis skilað sér í 5% raunaukningu í verðmæti frystra afurða yfir sama tímabil.

Ferskt
Ef horft er á ferskar afurðir þá dróst sá afurðaflokkur saman um 21,3% í magni frá árinu 2000 en verðmæti afurðanna jókst um 126,4% yfir sama tímabil. Hefur verðmæti ferskra sjávarafurða á hvert tonn því aukist umtalsvert frá árinu 2000 eða um 188%.

Saltað
Saltaðar afurðir skiluðu mesta verðmæti á hvert tonn á árinu 2016 eða um 690 þúsund krónur á tonn. Þar á eftir koma ferskar afurðir sem skiluðu um 645 þúsund krónur á tonn. Verðmæti á hvert tonn af ferskum afurðum lækkaði um 21% á árinu 2016 og gætir þar áhagstæðrar gengisþróunar. Minnstu verðmæti á tonn skiluðu mjöl og lýsisafurðir eða um 229 þúsund krónum. Vert er þó að taka fram að verðmæti á hvert tonn af mjöl- og lýsisafurðum hefur aukist um 216% frá árinu 2000.

Heimild: Íslandsbanki. Íslenskur sjávarútvegur 2017.