laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mestu verðmætin í öðru en matnum

Guðsteinn Bjarnason
30. mars 2020 kl. 07:00

Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis ehf. MYND/HAG

Segir kvótakerfið mestu björgun íslensks efnahagslífs fram að bankahruni.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis ehf. í Grindavík, ræddi um verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi í fundaröð SFS fyrir skemmstu.

Viðfangsefni fundarins var hvernig sjávarútvegurinn geti skilað sem mestum ábata til samfélagsins. Efni sem að mörgu leyti hefur verið umdeilt áratugum saman, þótt eitthvað hafi verið að dofna yfir þeim deilum á seinni árum.

„Talandi um að nýta auðlindir, þá skulum við byrja á að skoða hvernig á ekki að nýta þær,” sagði Pétur og rakti í stuttu mál sögu síðustu áratuga.

„Eftir að við náðum yfirráðum yfir fiskimiðunum fjárfestum við hér í skuttogaravæðingunni. Þar áður höfðum við fjárfest í nýsköpunartogurum og Svíþjóðarbátum, og eftir þetta var smábátavæðing.”

Allt sagði hann þetta hafa verið gert af góðum hug í nafni atvinnuuppbyggingar, en leiddi til ofveiði og til þess að vandamálin voru færð „úr einum vasa í annan. Þannig að þetta er dæmi um það hvernig á ekki að nýta auðlindina. Sjávarþorpin uxu með ofveiði og döluðu þegar menn stjórnuðu veiðunum aftur. Þetta var ósjálfbær uppbygging.”

Breytingar urðu árið 1984 þegar kvótakerfinu var komið á til þess að bjarga fiskistofnunum „og bjarga þar af leiðandi fyrirtækjunum sem voru öll á hausnum eftir þessa innspýtingu.”

Fyrirtækin sjálf tóku að sér að „bjarga til lífs” og þau gátu gert það eins og þeim hentaði best.

„En það sem var erfiðast fyrir alla sem höfðu verið í greininni var að viðurkenna vísindin, viðurkenna grunn vísindanna og hætta ofveiði. Þetta var bara mjög stór biti fyrir marga sem höfðu talið að hafið væri óþrjótandi uppspretta afla.”

Pétur sagðist kalla þetta „mestu björgun íslensks efnahagslífs fram að bankahruni, og reyndar er þetta stærra mál en það því sjálfsagt hefði ekki orðið neitt bankahrun ef við hefðum ekki bjargað fiskistofnunum. Við eigum allt undir því að viðgangur fiskistofna sé góður. Það er grunnurinn að veru okkar hér.”

Tenging veiða og vinnslu

Næst vék hann að samtengingu veiða og vinnslu, sem hann sagði eiga sér miklu lengri sögu en kvótakerfið.

„Þetta gerðist í rauninni þegar sjómenn sem misstu vinnuna eftir að síldin hvarf eða annað slíkt, þá fara þrír fjórir sjómenn kaupa sér bát og semja við einhverja fiskverkun um að landa hjá þeim í 3-4 ár til að fjármagna hjá þeim fyrstu útborgunina. Síðan þegar þeir voru búnir að borga fiskverkuninni útborgunina þá fóru menn að verka sinn eigin fisk,” sagði Pétur.

„Þannig að samtenging veiða og vinnslu byggir ekki á því að vinnsla eða einhverjir fjárfestar hafi keypt sér skipin, það byrjaði á því að sjómenn fóru í land. Þau fyrirtæki sem eiga rætur allt til 1950-60, allt frá sunnanverðum Vestfjörðum og að Hornafirði, eru meira og minna uppbyggð með þessum hætti.”

Hann sagðist tengja þann árangur sem náðst hefur í sjávarútvegi beint við „stýringu veiðanna og það fyrirkomulag sem við höfum á samtengingu veiða og vinnslu.”

Pétur vék einnig máli sínu að fjórðu iðnbyltingunni, sem nú þegar er komin á fullan skrið víða í íslenskum sjávarútvegi.

„Þarna er risatækifæri fyrir sjávarútveginn að ná enn meiri árangri í umhverfisfótsporinu. Tæknin sem við erum að innleiða og vinna með tæknifyrirtækjunum er í raun lykillinn að því.“

Verkefni næstu kynslóða

Sú hraða tækniþróun sem nú er í gangi í íslenskum sjávarútvegi segir Páll að muni drífa næsta hagvöxt hér á landi.

„Hún byggir á því að við erum með lifandi mælingu um borð í línuskipunum þegar fiskurinn er að koma inn. Við sjáum stærðadreifinguna og skiptingu milli tegunda og svo framvegis. Við erum líka með armana úti á mörkuðunum, lifandi mælingar á því hvernig selst. Allt sem þar er á milli er í raun ekkert annað en verkefni.“

Þessa tækniþróun segir hann vera stærsta tækifæri sem íslenskur sjávarútvegur hefur staðið frammi fyrir mjög lengi.

„Með þeirri iðnbyltingu og þeirri tækni og stýringu sem við höfum erum við að breyta okkur endanlega úr sjávarútvegi yfir í matvælaframleiðslu. Tæknin býður upp á það að við getum pakkað í endanlegar pakkningar.“

Þegar fiskurinn kemur inn í hús sé búið að selja hann eða ráðstafa með einhverjum hætti. Nú þurfi að klippa burtu allt sem fer í milliflutninga eða milliumbúðir.

Þetta segir Páll að sé verkefni næstu kynslóða, og þar sé ekki síst horft til fullnýtingar hráefnisins.

„Það er þannig að efnin sem fiskurinn er með í sér til að lifa af í hafinu er miklu verðmætari heldur en maturinn sem er á beinunum. Þessi vegferð er hafin, og eftir nokkrar vikur setjum við af stað kollagenverksmiðjuna þar sem fimm fyrirtæki tóku sig saman um að byggja hana upp eftir fimm ára þróun. Þannig að við erum ekki bara búnir að gera vel, við ætlum að gera betur.“

Lýsir eftir umræðu um eigendur

Pétur sagðist sannfærður um að almennt sé fólk hér á landi orðið sammála um það „hvernig við búum til pening úr auðlindinni. Sammála um að það er varla hægt að gera betur. Umræðan er hætt að snúast um kerfin, hún er farin að snúast um eigendurna.“

Þegar umræðan snýst um fyrirtækin þá er verið að skapa meiri óvissu með hugmyndum um uppboð, kerfisbreytingar eða meiri álögur. Slík umræða komi „beint niður á rekstri fyrirtækjanna og menn fara að haga sér í samræmi við það.“

Umræða um eigendurna snúist miklu síður um það sem er að gerast í fyrirtækjunum sjálfum.

„Það er ekki sama, umræða um eigendur og fyrirkomulag eignarhalds í sjávarútvegi eins og umræðan um að breyta kerfinu og leggja á álögur. Þannig að ég lýsi svolítið eftir þeirri umræðu.“