þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mestum uppsjávarfiski landað í Neskaupstað

19. febrúar 2016 kl. 15:50

Athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað (Guðlaugur Birgisson)

Á síðasta ári var landað þar rúmum 200 þúsund tonnum

Neskaupstaður ber höfuð og herðar yfir aðrar hafnir landsins þegar horft er til þeirra hafna þar sem mestum uppsjávarafla er landað, að því er frem kemur á vef Fiskistofu. Á síðasta ári var landað þar rúmum 200 þúsund tonnum. Það er aukning um tæp 21 þúsund tonn eða 11,3% frá fyrra ári.

Sú höfn sem kemur næst eru Vestmannaeyjar með tæpt 171 þúsund tonn. Athygli vekur hversu það er mikil aukning frá árinu áður eða um 65 þúsund tonn sem samsvarar 61,3% aukningu. Skýringuna á þessari aukningu má helst rekja til aukningar á aflaheimildum í loðnu á síðasta ári en í Vestmannaeyjum var í fyrra landað 86 þúsund tonnum af loðnu samanborið við 30 þúsund tonn á fyrra ári.

Landanir á uppsjávarafla undanfarin ár hafa færst í auknum mæli til Austfjarða. Árið 1993 var 42% af öllum uppsjávarafla landað á Austurlandi en hlutfallið hefur síðan vaxið nokkuð jafnt og þétt og í fyrra var það 64% sem er lítilsháttar aukning frá fyrra ári. Suðurland er sem áður í öðru sæti með 17% af lönduðum afla og kom hann á land nánast eingöngu í Vestmannaeyjahöfn. 

Þegar horft er til löndunar á helstu tegundum uppsjávarfisks eftir höfnum þá var mestu landað af loðnu í Vestmannaeyjum eða rúmlega 86 þúsund tonnum, sem eru 19% af allri landaðri loðnu hér á landi. Næst kemur Neskaupstaður með 73 þúsund tonn eða 16,1%.

Neskaupsstaður er með stærstan hluta af þeirri síld sem lönduð var hér á landi eða 24,6% (29.467 tonn) en Vestmannaeyjar koma næst með 16,6% og Hornafjörður með 14%. Það kemur heldur ekki á óvart að Neskaupstaður trjónir einnig á toppnum þegar horft er til löndunar á makríl en í Neskaupstað var landað 37.227 tonnum í fyrra eða 20,3% af allri makríl sem lönduð var í íslenskum höfnum. Skammt á eftir koma Vestmannaeyjar með 37.001 tonn (20,2%) og Vopnafjörður með 18.811 tonn (10,2 %).