miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meta stærð loðnustofnsins fyrir komandi vertíð

11. september 2020 kl. 08:51

Frá loðnumiðunum veturinn 2018, þegar síðast var veidd loðna hér við land. MYND/Daði Ólafsson

Fyrir liggur ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) frá því í nóvember 2019 um veiðar á allt að 169.520 tonnum á loðnuvertíðinni 2020/21. Aldrei hefur verið lagður meiri kraftur í leit að loðnu en á undanförnum tveimur árum.

Fyrirkomulag loðnuleitar í haust og vetur var til umræðu á fundi sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðaði til í gær með fulltrúum Hafrannsóknastofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Á fundinum fóru fulltrúar Hafrannsóknastofnunar yfir fyrirhugaða leit. 

Þetta kemur fram í frétt frá ráðuneytinu.

Á fundinum kom fram að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson heldur í haustleiðangur á mánudaginn og stendur hann yfir í 22 daga. Jafnframt mun rannsóknarskip á vegum Grænlendinga taka þátt í leiðangrinum. Munu skipin leita í september og október fyrir norðan og vestan land en einnig langt norður með austurströnd Grænlands. Er tilgangur leiðangursins að meta stærð loðnustofnsins og veita endurskoðaða ráðgjöf um hámarksafla á komandi vertíð.

Engar loðnuveiðar hafa verið stundaðar síðustu tvær vertíðar og stofninn verið í lægð frá því að hlýna tók á Íslandsmiðum um síðustu aldarmót.  Fyrir liggur ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) frá því í nóvember 2019 um veiðar á allt að 169.520 tonnum á loðnuvertíðinni 2020/21.  Byggir ráðgjöfin á sameiginlegri nýtingarstefnu Íslands, Grænlands og Noregs og samkvæmt henni er upphafsaflamark vertíðarinnar 169.520 tonn. Í ráðgjöfinni kemur fram að hún verði endurskoðuð að loknum rannsóknum í september 2020.  Samningur er um skiptingu loðnustofnsins milli Íslands, Grænlands og Noregs og fær Ísland 80% af ráðlögðum afla, Grænland 15% og Noregur 5%.

Á fundinum lagði Kristján Þór áherslu á mikilvægi þess að samstaða væri um fyrirkomulag leitarinnar og að allir aðilar þyrftu að róa í sömu átt. Vísaði hann til þess að aldrei hefur verið lagður meiri kraftur í leit að loðnu en á undanförnum tveimur árum Einhugur væri um að fylgja eftir þeirri áherslu á komandi misserum.