mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Metár í fjárfestingum frá 1990

Svavar Hávarðsson
19. maí 2018 kl. 12:00

Nýjustu skip flotans eru systurskipin Breki og Páll Pálsson.

Stór skref stigin í endurnýjun fiskiskipaflotans að undanförnu.

Á undanförnum fimm árum hafa rúmlega 70 ný skip bæst við fiskveiðiflotann. Tíu skuttogarar hafa komið til landsins í fyrra og það sem af er ári, auk 37 vélskipa og 25 opinna báta. Alls voru 53 þessara skipa smíðuð á Íslandi sem öll eru úr trefjaplasti og undir 30 brúttótonnum.

Ef eitthvað eitt er áberandi í þróun íslensks sjávarútvegs þá er það hröð endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans. Tækniþróun atvinnutækjanna innan sjávarútvegsins að öðru leyti – bæði til lands og sjávar – er engu minni en hún tekur ekki á sig eins áberandi mynd.

Í ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er fjallað um hversu stór skref voru tekin í fjárfestingum á nýliðnu ári – og það sett í samhengi við þróun síðustu ára. Þar er samantekið að rúmlega 70 ný skip hafa bæst við flotann á fjórum til fimm árum og mörg þeirra eru stór og glæsileg togskip, auk kaupa á nýjum og fullkomnum skipum til uppsjávarveiða.

Skip drífa að

Til landsins komu í fyrra átta skuttogarar. Allir togararnir voru þeir smíðaðir í Tyrklandi, ásamt fjórum af þeim sjö vélskipum sem voru yfir 1.000 brúttótonn. Tveir togarar voru auk þess sjósettir í Kína, en um ræðir togarana Breka VE og Pál Pálsson sem komu til heimahafna sinna í Vestmannaeyjum og á Ísafirði á dögunum.

Systurskipin Engey RE 91, Viðey RE 50, og Akurey AK 10 komu til heimahafnar í Reykjavík og á Akranesi. Systurskipin Björgúlfur EA 312, Björg EA 7 og Kaldbakur EA 1 komu til heimahafna í Eyjafirði og Drangey SK 2 kom til heimahafnar á Sauðárkróki. Nýr frystitogari, Sólberg ÓF 1, kom til heimahafnar á Ólafsfirði í vor. Öll þessi skip voru smíðuð í skipasmíðastöðvum í Tyrklandi og nema fjárfestingarnar rúmum 18 milljörðum króna.

Eskja á Eskifirði endurnýjaði tvö uppsjávarskip; Jón Kjartansson sem áður hét Charisma og smíðaður var í Noregi árið 2003 og Guðrúnu Þorkelsdóttur, áður Qavak, smíðað í Noregi árið 1999. Útgerðarfélagið Þórsnes endurnýjaði skip með sama nafni. Það er útbúið til neta- og línuveiða. Þórsnesið var smíðað í Noregi árið 1996 og hét áður Veidar.

HB Grandi hefur þess utan samið við spænska skipasmíðastöð um smíði á frystitogara sem reiknað er með að verði tilbúinn 2019. Smíði togarans er fyrir nokkru hafin hjá spænsku skipasmíðastöðinni Astilleros Armon Gijon á Norður-Spáni. Búið er að smíða og sníða um þriðjung skipsskrokksins.

Samkvæmt smíðasamningi er verð skipsins um 4,9 milljarðar króna og stefnt er að afhendingu þess um mitt næsta ár.

Skip keypt í kippum

Síldarvinnslan í Neskaupstað hyggst endurnýja flota sinn og stefnir að nýsmíði tveggja stórra og tveggja minni ísfisktogara. Skipin sem víkja eru Barði NK, Gullver NS og Vestmannaey VE og Bergey VE sem gera út undir merkjum Bergs – Hugins, systurfélags Síldarvinnslunnar. Undirbúningur þessa stóra verkefnis hófst strax árið 2016.

Það er þessu tengt að samið hefur verið um smíði á sjö togskipum í Noregi fyrir íslenskar útgerðir. Skipin eru 29 metra löng og 12 metra breið. Það eru fjögur íslensk útgerðarfyrirtæki sem standa að baki systurskipunum sjö. Útgerðarfélagið Bergur-Huginn lætur smíða tvö skip, Gjögur tvö skip, Skinney – Þinganes tvö skip og Útgerðarfélag Akureyrar eitt skip. Skipin verða afhent árin 2019 og 2020.

Met fjárfesting

Frá því segir í skýrslu SFS að fjárfesting í sjávarútvegi nam alls 37 milljörðum króna á árinu 2017, sem er sú mesta sem verið hefur á þeim tíma sem liðinn er frá því að lög um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 tóku gildi. Sér í lagi var um mikla fjárfestingu í skipum að ræða, eins og áður segir, enda ekki vanþörf á að endurnýja flotann sem er kominn til ára sinna.

Fjárfesting í fiskveiðum nam alls 25 milljörðum króna og í fiskvinnslu um 12 milljörðum. Stærstan hluta fjárfestingar í fiskveiðum má rekja til nýsmíði skipa en meðalaldur togara var um 20 ár um síðustu aldamót en var kominn upp í 30 ár árið 2016. Fjárfestingar í nýjum skipum árin 2016 og 2017 hafa því lækkað meðalaldur togaraflotans um fimm ár, segir í skýrslunni.

Við þetta má bæta að Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagði á ársfundi samtakanna á dögunum að fjárfestingarþörf í fiskiskipum fram til ársins 2030 sé metin um 180 milljarðar króna. Þar af smíði 35 togara fyrir 84 milljarða króna og 110 vélskip fyrir aðra 94 milljarða króna.