þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Michelin veitingastaðir sakaðir um að bjóða fisk á válista

19. október 2009 kl. 12:35

Margir af fínustu og dýrustu veitingastöðum Bretlands, þeirra á meðal staðir sem fengið hafa Michelin stjörnurnar eftirsóttu, hafa verið ásakaðir um að hafa á matseðlum sínum fisktegundir sem umhverfissamtök hafa sett á rauðan lista og sagt vera í útrýmingarhættu.

Þetta kemur fram í breska blaðinu Sunday Times og er vísað í könnun sem höfundar kvikmyndarinnar ,,The End of the Line” hafa gert. Meðal þessara tegunda er bláuggatúnfiskur.

Könnunin náði yfir eitt hundrað veitingastaði og reyndust 9 af hverjum 10 hafa eitthvað fiskmeti á matseðli sem umhverfisverndarsamtök telja að sniðganga beri á þeirri forsendu að viðkomandi fiskistofnar séu ofnýttir.

Þá kom fram að af þeim 25 veitingastöðum sem kannaðir voru og skreyta sig með Michelin stjörnum reyndust sjö hafa á matseðlum sínum fisk úr stofnum sem taldir eru í útrýmingarhættu og allir staðirnir nema þrír buðu viðskiptavinum sínum einhvern fisk sem umhverfissamtök telja að sniðganga eigi vegna ofnýtingar stofnanna.

Ekki voru þó allar fréttir úr könnuninni neikvæðar. Þannig þótti skýrsluhöfundum ástæða til þess að hrósa í hástert skosku veitingahúsakeðjunni Loch Fyne fyrir að selja hinn mjög svo sjálfbæra íslenska þorsk og sömu einkunn fékk ýsan úr Norðursjó. 

Sjávarútvegsvefurinn FishUpdate.com skýrir frá þessu.