sunnudagur, 20. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Miður sín yfir stöðunni

21. nóvember 2019 kl. 12:20

Þór Heiðar Ásgeirsson, forstöðumaður Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna. MYND/GB

Fréttir af framferði Samherja koma jafnt kennurum sem nemendum Sjávarútvegsskóla Háskóla S.Þ. í opna skjöldu. Verkefnastjóri FarFish segir málið einnig geta dregið úr trúverðugleika.

„Við erum auðvitað leið eins og allir yfir þessu. Ég held að það sé eina orðið sem nær yfir þetta,” segir Þór Heiðar Ásgeirsson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. „Hins vegar verðum við líka að halda því á lofti að Samherji hefur sem og iðnaðurinn allur reynst okkur mjög vel í gegnum tíðina. Þess vegna er maður miður sín og undrandi yfir stöðunni.”

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur starfað hér á landi í rúma tvo áratugi. Starfsemi hans er hluti af þróunaraðstoð Íslendinga. Hingað koma nemendur frá þróunarlöndum í sex mánaða þjálfunarnám, þar á meðal frá Namibíu, fátæku landi sem nú er í fréttum vegna uppljóstrunar um framferði Samherja þar undanfarin ár.

„Við höfum verið með nemendur frá Namibíu nánast frá fyrsta degi og tengdist það þróunaraðstoð Íslands við Namibíu á sínum tíma. Namibía hefur síðan þá verið einn af okkar stærri samstarfsaðilum,” segir Þór.

Fyrsti nemandinn frá Namibíu kom hingað árið 1999, á öðru starfsári skólans. Þau tuttugu ár sem síðan eru liðin hafa um tuttugu nemendur frá Namibíu fengið þjálfun við skólann. Þeir hafa felstir starfað í sjávarútvegsráðuneyti Namibíu, við namibísku hafrannsóknarstofunina eða kenna í sjómannaskólanum þar.

„Við erum að þjálfa fagfólk sem hafa áhrif á stefnumótun í þessum löndum en eru ekki áberandi í fjölmiðlum en vinna með þá þætti sem nýttir eru til grundvallar ákvarðanatöku í fiskveiðistjórnun.”

Hann er spurður hvort hann sjái fyrir sér að Samherjamálið hafi einhverjar afleiðingar fyrir skólann eða nemendur hans.

„Nei, ekki á þessu stigi málsins, en trúverðugleiki okkar gæti skaðast. Það á eftir að rannsaka þetta mál og það lítur ekki vel út. En Sjávarútvegsskólinn er staðfastur í því að byggja upp faglega færni í sjávarútvegi hjá lykilfagfólki í okkar samstarfslöndum.”

Fagleg nálgun
„Gagnsæið vinnur gegn spillingu,” segir Þór Heiðar. Skólinn hafi jafnan lagt mikla áherslu á gagnsæi og nemendur kynnist því að hér á landi taki sjávarútvegurinn þeim opnum örmum.

„Þau fá að fara inn fjölda fyrirtækja og sjá samvinnuna milli rannskóknastofnana, háskólaumhverfisins og stjórnsýslunnar. Þetta sést ekki víða og þetta er eitt af því sem þeir taka heim með sér.”

„Við reynum að nálgast þetta mjög faglega. Samstarfsaðilar okkar eru aðallega ráðuneyti og undirstofnanir þeirra, og við leggjum okkur fram við að hlusta eftir bæði þörfum þeirra og forgangsatriðum þegar kemur að þróunarmálum í sjávarútvegi. Þegar við veljum inn í hópinn á hverju ári kemur það í kjölfarið á góðu samtali. Við tryggjum að menn uppfylli ákveðin skilyrði en síðan eru það samstarfsaðilar okkar sem taka endanlega ákvörðun um það hverjir koma til okkar í þjálfun.”

Þór tók við starfi forstöðumanns í ágúst sl. en hefur starfað við skólann nánast frá upphafi og verið í samskiptum við yfirvöld í sjávarútvegi í fjölmörgum löndum víðs vegar um heim.

„Ég er búinn að ferðast til yfir 20 Afríkulanda og unnið með þeirra helstu sérfræðingum á sviði sjávarútvegs og auðvitað veit maður að það gengur á ýmsu. Við vitum að ólöglegar veiðar er stórt vandamál í Afríku og ein gjöfulustu fiskimið í heimi eru þarna við norðvesturströndina.

Evrópuverkefnið Farfish
Skólinn tekur ásamt Matís þátt í Evrópuverkefninu FarFish, sem snýst um að stuðla að ábyrgum og sjálfbærum veiðum á vegum aðildarríkja ESB á fjarlægum veiðislóðum, þar á meðal við Afríku.

„Okkar hlutverk þar er að hjálpa fjórum samstarfslöndum okkar sem hafa samning við Evrópusambandið og styrkja þau við samningsborðið.”

Þau eru Seychelles-eyjar, Máritanía, Senegal og Grænhöfðaeyjar. Hlutverk skólans er að styðja þessar þjóðir þegar Evrópusambandið kemur að semja um veiðar, kvótaheimildir og verðlagningu. Í slíkum samningum er allt uppi á borðum og mat lagt á framkvæmd samningsins.

„Þetta eru opinberir samningar og þarna er verið að semja um aðgengi að auðlindum. Það má bera þetta saman við það sem Samherji er að gera sem er ekki mjög gagnsætt.”

Gerir okkur erfiðara fyrir
„Auðvitað slær þetta mann. Þetta er hið versta mál og út frá sjónarhóli þessa verkefnis kemur þetta sér mjög illa, þar sem við höfum notið góðs af því að Ísland er talið frekar hlutlaust þegar kemur að nýtingu erlendra þjóða á sjávarútvegsauðlindum við strendur Afríku,“ segir Jónas R. Viðarsson, fagstjóri hjá Matís. Hann hefur fyrir hönd Matís stýrt Evrópuverkefninu FarFish.

„Við erum að skoða veiðar Evrópusambandsins við strendur vestur Afríku og höfum álitið að Íslendingar væru að haga sér skikkanlega þarna. Í verkefninu höfum við jafnvel bent á að það sé í raun ekki svo langt síðan að Ísland var í þeirra stöðu, með stóran erlendan flota að ofveiða stofna í okkar lögsögu og aflinn ekki einu sinni að koma í land á Íslandi. Þetta er því alveg sérstaklega sorglegt fyrir okkur sem komum að FarFish verkefninu og gerir okkar starf erfiðara, þar sem verkefnið gengur mikið út á að byggja upp traust."

Heyrir alls konar sögur
FarFish verkefnið er til fjögurra ára og er rúmlega hálfnað um þessar mundir. Ísland stýrir þessu verkefni og Jónas er verkefnastjórinn.

„Verkefnið nær ekki í Namibíu, en við erum hins vegar að skoða önnur hafsvæði á vesturströnd Afríku þ.m.t. Grænhöfðaeyjar, Máritaníu, Senegal og alþjóðleg hafsvæði sem liggja m.a. fyrir utan 200 mílurnar við Namibíu. En aðalfókusinn á uppsjávartegundir er við strendur Marokkó og Máritaníu.”

Hann segir mikið skorta upp á gagnsæi í veiðum út af ströndum Afríku og að það sé enginn hægðarleikur að bæta þar úr.

Sum Evrópusambandsríki, sérstaklega Spánn, stundi miklar veiðar við vesturströnd Afríku og eru með öfluga hagsmunagæslu. Auk þess hafa bæði Tyrkir og Kínverjar verið stórtækir í fjárfestingum í sjávarútvegi á svæðinu. Þeir eru t.a.m. orðnir gífurlega fyrirferðarmiklir í Máritaníu í gegnum fyrirtæki sem þeir eiga í landinu. Á örfáum árum hafa þeir fjárfest í flota sem telur nú yfir 50 skip og um 30 fiskimjölsverksmiðjur.

„Maður er stöðugt að ganga á veggi í þessu verkefni“ segir Jónas. „Þarna er um mikla peninga að tefla og maður hefur auðvitað heyrt alls konar sögur um það hvernig menn fara að því að fá veiðiheimildir.”