mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikið af makríl við Norður-Noreg

20. júní 2011 kl. 17:29

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Hefðbundinn veiðitími er á haustin en nú er kastað í miðnætursól.

Norskir skipstjórar sem hafa verið á höttunum eftir makríl úti fyrir Norður-Noregi að undanförnu hafa orðið varir við hann á stóru svæði. Fiskurinn er tiltölulega dreifður og því þarf að hafa fyrir því að finna bletti til að kasta á.

Á vefsíðu norska síldarsamlagsins segir að veiðarnar síðustu dagana hafi farið fram úti fyrir Brönnöysund, við Lófóten og á svæðinu utan við Myken. Sjómennirnir sem yfirleitt taka makrílkvóta sína á haustin eru sagðir himinlifandi að geta haldið sig þarna norðurfrá og kastað á makrílinn í miðnætursól.

Makríllinn sem veiðist er tiltölulega stór og segja kaupendurnir að gæðin séu mikil og markaðir góðir. ,,Það vantar bara fleiri báta á sjó, við erum reiðubúnir að taka við aflanum,” segir innkaupastjórinn hjá Lofoten Viking.