þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil áhrif á stærsta fiskmarkað heims

31. janúar 2020 kl. 12:55

Faraldurinn hefur þegar haft mikil áhrif í Kína og ástandið verður alvarlegra með hverjum deginum sem líður. Mynd/EP

Kórónaveiran raskar öllu daglegu lífi Kínverja

Útbreiðsla kórónaveirunnar í Kína hefur nú áhrif á daglegt líf allra í þessu fjölmennasta ríki heims. Þegar hefur verið greint frá því að á annað hundrað manns hafi látist og þúsundir smitast. Kína er stærsti markaður með sjávarfang í heimi og áhrifanna gætir þar eins og annars staðar.

„Áhrif faraldursins á vinnslu sjávarfangs og markaði munu verða gríðarleg,“ hefur fréttaveitan IntraFish eftir heimildamanni sínum í Kína. Nú virðist liggja fyrir að allar fiskvinnslur landsins, af öllum stærðum og gerðum, verða lokaðar í einhverjar vikur eftir að hefðbundnum lokunum vegna nýárshátíðarhalda líkur þar í landi.

Borgir í sótkví

Eins og komið hefur fram í fréttum hvetja yfirvöld til þess að fólk á stórum svæðum innan landsins ferðist ekki, vinni að heiman ef þess er nokkur kostur og þegar síðast fréttist höfðu sautján borgir með tugi milljóna íbúa verð settar í einskonar sóttkví, en kórónaveiran veldur bráðri lungnabólgu og engin lyf til við henni.

Kínverjar flytja líka inn gríðarlegt magn af sjávarafurðum bæði til neyslu innanlands og sem hráefni í afurðir sem fullunnar eru innan landsins til útflutnings. Neysla sjávarafurða er jafnframt mikil í Kína. Þess vegna er fyrirséð að mikil röskun verður á markaði með sjávarafurðir, eins og margt annað.

Sérfræðingar á kínverska markaðnum nefna fiskvinnslu sérstaklega, en flutningar innan landsins eru líka á stórum svæðum farnir úr skorðum – bæði innan borga og á milli landshluta. Vinnsla og verslun með sjávarfang er því erfið eða ómöguleg á þessum svæðum.

Til þess er jafnframt tekið að þessi árstími í Kína, þegar nýju ári er fagnað, sé tíminn þegar fjölskyldur leggja mikla áherslu á samveru og ferðalög. Á þessum tíma tvöfaldast útgjöld kínverskra fjölskyldna til matarkaupa og ferðir á veitingahús eru aldrei fleiri innan ársins. Nú er þessu öfugt farið í kjölfar tilmæla yfirvalda um að fólk haldi sig sem mest heima.

Óseðjandi fiskætur

Eftirspurn Kínverja eftir sjávarafurðum virðist vera óseðjandi um þessar mundir. Innflutningur hefur um það bil tvöfaldast frá árinu 2017, ef innflutningurinn fyrstu sex mánuðir þess árs eru bornir saman við fyrstu sex mánuði ársins 2019. Þess vegna eru áhrif faraldursins í Kína á annarri stærðargráðu en víðast hvar annars staðar í heiminum – enda fjölmennasta ríki heims.

En það er með þetta eins og annað að þeir sem versla með sjávarafurðir í Kína vilja meina að áhrif þessa alvarlega ástands í landinu gæti haft jákvæð áhrif á markaði í landinu þegar til lengri tíma er litið. Upphaf faraldursins er rakinn til Hubei, héraðs í miðhluta Kína, en veiran kom upprunalega upp í höfuðborg héraðsins, borginni Wuhan. Sökudólgurinn er talinn vera villibráð, sem er vinsæl í landinu. Ekki er um villibráð að ræða sem við eigum að venjast heldur slöngur, eðlur og fleiri tegundir sem eru vinsæll matur í Kína.

Faraldurinn nú er talinn hafa þau áhrif að Kínverjar verði enn meðvitaðri um heilsusamlegt mataræði, sem mjög er tengt fiskneyslu þar í landi. Því er ekki loku fyrir það skotið að þegar um hægist muni verða gerðar ríkari kröfur til vinnslu matvæla og markaðir með matvæli þurfi að gæta enn frekar að hreinlæti og öðrum kröfum um sölu á matvælum. Þetta er talið líklegt til að gagnast þeim sem höndla með sjávarfang í Kína og byggi undir enn frekari vöxt á mörkuðum með fiskafurðir í landinu.