mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil eftirspurn eftir makríl þrátt fyrir stóraukið framboð

2. ágúst 2011 kl. 12:00

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Verð á sumarmakríl í Noregi er um 200 krónur ISK á kíló

Mikil eftirspurn er eftir makríl þrátt fyrir aukið framboð vegna veiða Íslendinga og Færeyinga. Markaðsmenn í Noregi spá því að verð haldist hátt eða hækki, að því er fram kemur á IntraFish.

Framboð af makríl hefur einnig aukist vegna veiða Norðmanna á sumarmakríl sem er óvenjustór um þessar mundir, eða 500-600 grömm að meðaltali.

Aðalveiðitímabilið er þó enn eftir frá byrjun ágúst og fram í byrjun nóvember. Ekki er búist við verðlækkun með vaxandi framboði á næstu vikum og mánuðum. Þvert á móti bendir flest til að verðið verði hærra en í fyrra.

Jafnvel færeyski makríllinn sem veiddur hefur verið í maí og júní og er því horaður hefur selst á góðu verði, 1.800 dollara á tonnið (210 þúsund ISK).

Stóri sumarmakríllinn frá Noregi hefur selst að meðaltali á 9,40 krónur norskar á kíló á uppboðsmarkaði (201 ISK). Það er 17% hækkun frá sama tíma í fyrra. Markaðsverð í Asíu fyrir stóra sumarmakrílinn, 400 til 600 grömm að þyngd, er um 2.850 dollarar á tonnið (330 þúsund ISK). Norskir markaðsmenn hugsa því gott til glóðarinnar þegar veiðar á stærsta og verðmætasta makrílnum fara að hefjast.