miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil ferð á makrílnum

22. ágúst 2019 kl. 10:25

Víkingur AK

Víkingur AK er nú í höfn á Vopnafirði en þangað kom skipið um kl. 20 í fyrrakvöld með 820 tonn af makríl. Aflinn fékkst í fimm holum í Síldarsmugunni, djúpt austur af landinu, og þar af fékkst megnið af aflanum í þremur holum á mánudag.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins.

„Það hefur allt gengið að óskum. Aflinn er yfirleitt mjög góður en það kemur fyrir að hann detti niður í nokkra klukkutíma inn á milli. Það er mikil ferð á makrílnum en það er engu líkara en að hann gangi í hringi þegar hann er kominn þarna út. Við höfum elt makrílinn í allar áttir og þegar við hættum veiðum var hann á hraðri leið í vesturátt. Við vorum þá komnir á sömu slóðir og við hófum veiðarnar á,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK.

Að sögn Alberts er örugglega eitthvað að bætast við makrílgönguna í Síldarsmugunni.

„Við merkjum það m.a. á stærðinni á fisknum. Í síðasta túr var makríllinn allur af svipaðri stærð og við vorum lengst af að veiða við Suð-Austurland eða ríflega 500 grömm. Í þessum túr var fiskurinn heldur smærri eða um 460 grömm að jafnaði. Á heimsiglingunni lóðaði svo á makríl í íslenskri landhelgi og það er aldrei að vita nema einhver hitti á góða göngu á útstíminu á næstunni,“ segir Albert.