miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil spurn eftir fiskmjöli í heiminum

Gudjon Gudmundsson
8. ágúst 2020 kl. 06:00

Verð á kolmunna á norskum uppboðsmarkaði hefur hækkað mikið.

Norðmenn sjá fram á metsöluverðmæti

Mikil eftirspurn og hátt verð á fiskmjöli hefur leitt til metsölu á uppsjávartegundum hvað söluverðmæti varðar á uppboðsmörkuðum í Noregi. Fyrra met er frá árinu 2011 þegar söluverðmætið náði 8,5 milljörðum NOK, rúmum 126 milljörðum ÍSK. Á síðasta ári nam salan 8,1 milljarði NOK, 120 milljörðum ÍSK og fyrstu sex mánuði þessa árs salan 1,6 milljarði NOK hærri en fyrstu sex mánuði metársins 2011. Stóra spurningin er sú hvort heildarsalan fari í fyrsta sinn yfir 10 milljarða NOK á heilu ári, 148,5 milljarða ÍSK.

Vegna óvissu um ansjósuveiðar úti fyrir Perú og Chile hefur verð á fiskmjöli á alþjóðlegum mörkuðum rokið upp. Um þriðjungur af árlegu framtoði til fiskmjölsframleiðslu hefur komið frá þessum löndum.

Verð á fiskmjöli fór hækkandi strax í apríl og stóð verðið þá í 1.900 dollurum tonnið, 256.000 ÍSK. Fyrr á þessu ári fór birgðastaða í kínverskum vöruhúsum að lækka með bata í efnahagslífinu.

Þetta hefur leitt til metverðs á uppsjávartegundum sem landað er í Noregi til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi, einkum þó á kolmunna og sandsíli.

Heildarkolmunnakvóti Norðmanna jókst um einungis 1% á þessu ári og er 360.300 tonn sem er umtalsvert minna en árið 2018 þegar kvótinn var 420.000 tonn. Meðalverð á kolmunna á þessu ári hefur hins vegar verið 48 ISK/kg en var 37 ISK/kg allt árið í fyrra. Staða Norðmanna er enn betri hvað sandsílið varðar. Helmingi meiri kvóti var gefinn út fyrir yfirstandandi ár miðað við árið í fyrra, alls 250.000 tonn og veiddust 240.000 tonn. Meiri spurn eftir fiskimjöli og lýsi hefur lyft verðinu úr 44,5 ISK/kg árið 2019 í 53, ISK/kg á þessu ári.

Þessi 245.000 tonn af sandsíli skiluðu söluverðmætum upp á 875 milljónir NOK, 13 milljarða ISK, 500 milljónum NOK hærri verðmætum en í fyrra.