föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil sýking fannst í síld sem veidd var í troll

29. október 2009 kl. 09:36

Töluvert af síld hefur fundist í Breiðafirði og mikil sýking er til staðar í þeirri síld sem veidd hefur verið í troll, að því er Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofna hjá Hafrannsóknastofnun, sagði í samtali við Fiskifréttir en rætt var við hann um hádegisbilið í gær.

,,Við höfum rannsakað sýni úr síld sem veiddist á Dröfn RE í Breiðafirði og þau líta mjög illa út. Vissulega eru það mikil vonbrigði en við getum hins vegar ekki metið sýkingarhlutfallið fyrr en við höfum rannsakað þau sýni sem tekin eru við nótaveiðar. Við erum þessa stundina að fá sýni frá Ásgrími Halldórssyni SF en hann veiddi um 350 tonn af síld í gær í nót,“ sagði Þorsteinn.

Dröfn RE hefur einnig verið við bergmálsmælingar í Breiðafirði. Börkur NK hefur mælt síld í Breiðamerkurdýpi og Súlan EA fann örlítið af síld fyrir vestan land. Þorsteinn sagði að engar niðurstöður lægju fyrir varðandi stofnmælinguna. Verið væri að vinna úr þeim upplýsingum sem safnað hefur verið. Þó væri ljóst að megnið af síldinni væri í Breiðafirði.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.