mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikill hráefnisskortur ógnar rækjuiðnaðinum

15. maí 2014 kl. 09:00

Rækjuveiðar (Ljósm. Sæmundur Jónsson)

„Engin lausn önnur en að auka veiðar á rækju á Íslandsmiðum“

Framboð á hráefni til rækjuvinnslu á Íslandi hefur snarminnkað síðustu árin. Rækjuverksmiðjur sjá fram á erfiða tíma vegna hráefnisskorts ef ekki tekst að auka veiðar á heimamiðum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Rækjuverksmiðjur á Íslandi hafa frá því fyrir aldamót verið háðar innflutningi á iðnaðarrækju til vinnslu. Rækjuveiðar við Ísland hrundu eftir miðjan síðasta ártug en hafa aukist síðan.

Þegar mest var voru flutt inn um 53 þúsund tonn af rækju árið 2004. Árið 2011 var þessi innflutningur kominn niður í um 22 þúsund tonn og á síðasta ári voru aðeins flutt inn um 10 þúsund tonn af rækju til vinnslu.

Í heild höfðu verksmiðjurnar úr um 21 þúsund tonni að spila á síðasta ári að meðtöldum veiðum íslenskra skipa á rækju á móti 25 þúsund tonnum árið 2012. Á árunum 2001 til 2004 var hráefni til rækjuvinnslu á Íslandi hins vegar 65 til 73 þúsund tonn.

„Það er erfiður slagur framundan. Á því er engin önnur lausn en að auka veiðar á rækju á Íslandsmiðum til að afla verksmiðjunum hráefnis“ segir Yngvi Óttarsson, framkvæmdastjóri Íslensku útflutningsmiðstöðvarinnar og stjórnarmaður í rækjuvinnslunni Dögun á Sauðárkróki, í samtali við Fiskifréttir.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.