fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikill órói í Víetnam vegna mengunarslyss

28. september 2016 kl. 08:43

Dauður fiskur við strönd Víetnam

57 milljarða bætur lægja ekki öldurnar

Hundruð víetnamskir fiskimenn hafa stefnt stálfyrirtæki í eigu aðila í Taiwan fyrir að hafa hleypt eiturefnum í sjóinn og valdið því að fiskur hafi drepist í stórum stíl við strönd Mið-Víetnam í apríl síðastliðnum.

Mikil alda óánægju og mótmæla hefur risið í Víetnam út af þessum atburði. Stálfyrirtækið, Formosa Plastics Group, viðurkenndi í júní síðastliðnum að það bæri ábyrgð á menguninni sem drap fiskinn. Fyrirtækið hefur boðist til að greiða 500 milljónir dollara (um 57 milljarða ISK) til að hreinsa ströndina og í bætur til hlutaðeigandi. Þetta tilboð fyrirtækisins virðist ekki hafa lægt öldurnar.

Fiskimenn segja að þetta sé stærsta mengunarslys sögunnar í Víetnam. Áætlað er að 115 tonnum af dauðum fiski hafi skolað á land á meira en 200 kílómetra svæði. Mengunarslysið hefur áhrif á lífsviðurværi meira en 200 þúsund manna, þar af eru rúmlega 40 þúsund fiskimenn, samkvæmt opinberri skýrslu.