laugardagur, 6. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikill verðmunur vegna vottunar

Guðsteinn Bjarnason
28. nóvember 2020 kl. 13:00

Á gullkarfaveiðum en tegundin hefur notið sérstöðu í Þýskalandi vegna vottunar. Aðsend mynd

á tólf mánaða tímabili fyrir gullkarfavottun árið 2014 var verð á gullkarfa 12 til 19 prósentum hærra en á djúpkarfa, en á 12 mánaða tímabili eftir að vottun fékkst var verðmunurinn kominn upp í 25 til 39 prósent.

Dæmi eru til þess að verðmunur MSC-vottaðra og óvottaðra afurða nemi tugum prósenta.

Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC, segir sjávarútvegsfyrirtæki hafa margs konar ábata af því að vera með MSC-vottun, það geti bæði auðveldi aðgang að mörkuðum og tryggt betra verð. Hann tekur þó fram að MSC geti engu lofað um slíkt.

Bæði hann og Óskar Sigmundsson, framkvæmdastjóri Maróss GmbH, ræddu vottunarmál á fjarfundi Þekkingarseturs Vestmannaeyja í síðustu viku.

Gísli nefndi þar að ritrýndar greinar hafi staðfest verðmun í stórmörkuðum þar sem MSC-vottaðar vörur seljast á kannski tíu til fimmtán prósent hærra verði en sambærilegar vörur. Í sömu greinum sé einnig staðfesting á því að svipaður verðmunur sé á línuveiddum fiski og öðrum fiski, þegar það er tiltekið í verslunum hvort um sé að ræða línuveiddan fisk eða ekki.

Fyrsti vottaði karfinn

Hann tók dæmi af gullkarfaveiðum sem fékk MSC-vottun árið 2014: „Gullkarfi á Íslandi var fyrsti vottaði gullkarfinn í MSC-kerfinu, og er í raun enn eini vottaði gullkarfinn.“

Gísli lét gera fyrir sig könnun á uppboðsmarkaði á Íslandi og niðurstöðurnar voru þær að á tólf mánaða tímabili fyrir gullkarfavottun árið 2014 var verð á gullkarfa 12 til 19 prósentum hærra en á djúpkarfa, en á 12 mánaða tímabili eftir að vottun fékkst var verðmunurinn kominn upp í 25 til 39 prósent.

„Það má færa rök fyrir því að þarna sé verðmæti vottunar eitthvað að tikka inn.“

Óskar Sigmundsson, framkvæmdastjóri í Marós, tók undir þetta en fyrirtæki hans hefur langa reynslu af markaðssetningu á gullkarfa í Þýskalandi. Nú sé einnig að skapast markaður þar fyrir steinbít og Óskar nefnir einnig að tækifæri geti skapast fyrir íslenska sumargotssíld ef hún nær MSC-vottun, fari svo að vottun norsk-íslensku síldarinnar verði afturkölluð um áramótin eins og allt stefnir í.

Gísli segir einnig frá dæmi um þorsk- og ufsaveiðar í Barentshafi þar sem hver veiðiþjóð er komin með sitt MSC-skírteini. Gísli sagðist vita til þess að einn togari hafi ekki viljað vera með í vottuðum veiðum síns lands þar, „en nú fékk ég í síðustu viku tilkynningu um að hann væri kominn inn í það skírteini. Ástæðan hafi verið sú, sagði mér sá sem er handhafi þess skírteinis, að í síðustu löndun þá hefði hans afli selst hægar og þeim hefði reiknast til að það væri um það bil átta prósent lægra verð sem hann fékk. Þannig að hann er kominn í skírteinið núna.“