mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikilvægi ferðanna eykst frá ári til árs

18. janúar 2020 kl. 13:00

Frábær aðstaða er í Norðursjávarmiðstöðinni til að vega og meta virkni nýjunga í veiðarfæragerð. Mynd/Hampiðjan

Heimsóknir Hampiðjunnar í tilraunatankinn í Hirtshals í Danmörku er fyrir löngu orðnar hefð sem fyrirtækið og viðskiptavinir þess nýta vel.

Það er mat Jóns Odds Davíðssonar, framkvæmdastjóra Hampiðjunnar Ísland, að mikilvægi árlegra ferða fyrirtækisins í tilraunatankinn í Hirtshals í Danmörku fari vaxandi með hverju árinu sem líður.

„Við vorum um 45 talsins að þessu sinni. Gestirnir komu víða að eða frá Írlandi, Rússlandi og Portúgal og svo auðvitað héðan frá Íslandi. Tankferðin gekk mjög vel og mörg áhugaverð veiðarfæri voru skoðuð að þessu sinni. Botntrollin vöktu mesta athygli sem og DynIce ljósleiðarakapallinn sem menn voru mjög hrifnir af.”

Áratuga hefð

Þannig lýsir Jón Oddur vel heppnaðri ferð Hampiðjumanna í frétt frá fyrirtækinu. Þar hittust Hampiðjumenn og viðskiptavinir fyrirtækisins í Norðursjávarmiðstöðinni í Hirtshals nú skömmu fyrir áramót. Sambærilegar ferðir hafa verið farnar á vegum Hampiðjunnar um áratuga skeið enda taldar besti möguleiki skipstjórnarmanna og annarra til að sjá hvernig veiðarfærin sem þeir notast við virka í sjó við raunverulegar aðstæður.

Meðal botntrollanna, sem Jón Oddur nefnir, er nýtt Jagger botntroll sem verið hefur í þróun að undanförnu. Einnig voru eldri troll sem fyrir löngu eru búin að sanna gildi sitt, eins og  Gulltoppur, H-toppur og Hemmer, einnig sýnd sem og mismunandi útfærslur á trollpokum.

Síung Gloría

Um Gloríu flottrollin segir Jón Oddur í fréttinni að helstu áherslurnar voru að sýna 2048 síldartrollið sem hefur sannað gildi sitt að undanförnu.

„Við sýndum einnig þróun á belgjum fyrir þetta troll og sömuleiðis var sýnd ný útfærsla af þessu trolli, 2304, með stærri möskva í vængjum. Önnur troll sem vöktu athygli var Gloría 3072 karfatrollið og Gloría 1056 Longwing sem hefur verið notað til að veiða alaskaufsa í Austur - Rússlandi. Einnig sýndum við makríl DynIce kvikklínupokann með T90 neti í fyrsta skipti í tanki og fjögurra byrða, þriggja spena botntrollspoka á kvikklínum.“

Þá var kynnt nýtt rækjutroll, sem hannað er af Hermanni Guðmundssyni á Akureyri sem hann hefur þróað í góðu samstarfi við rækjuveiðisjómenn, að sögn Jóns Odds.

Einnig voru fyrirtækin Thyborøn og Simrad með kynningu á sínum vörum samhliða heimsókninni í tankinn.

„Thyborøn kynnti nýja vörulínu sína á sviði toghlera og það sem helst vakti athygli hjá þeim var stýranlegur flottrollshleri sem vakti umtalsverða athygli skipstjórnarmanna í tanknum. Simrad-menn voru einnig með áhugaverðar kynningar á sinni framtíðarsýn. Það sem vakti mesta athygli var FM 90 hátíðni troll-sónar sem sem hægt er nota með DynIce ljósleiðarakaplinum okkar,“ segir Jón Oddur.

Viðbrögð koma strax

„Fyrir okkur eru ferðir sem þessi mikilvægar. Í þeim fáum við tækifæri til að sýna þær vörur sem við erum að þróa og prófa þær í tanki með viðskiptavinum okkar. Þannig fáum við viðbrögð strax, getum brugðist við athugasemdum og prófað aftur. Einnig er þetta gríðarlega mikilvægur vettvangur fyrir skipstjórnarmenn til að sjá hvernig veiðarfærin haga sér og hvernig þau bregðast við ákveðnum aðgerðum. Þá er ótalið mikilvægi þess að menn hittist og skiptist á skoðunum. Í þessum ferðum hittast menn sem voru saman í skóla og hafa ekki sést í mörg ár og menn sem hafa talast lengi við í talstöðinni úti á sjó en aldrei hitt hvorir aðra,“ segir Jón Oddur í frétt Hampiðjunnar.