föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Milljarða ákvörðun

13. júlí 2020 kl. 14:00

Örn Pálsson.

Miklar sviptingar í mati Hafró á stærð hrygningarstofns þorsks. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, skrifar.

Á undanförnum árum hefur árlegur þorskafli miðast við einn fimmta hluta af veiðistofni.  Í skýrslum Hafrannsóknastofnunar „Ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf“ koma meðal annars koma fram upplýsingar um niðurstöður úr vorralli stofnunarinnar.  Útfrá þeim er nýliðun metin, meðalþyngd, stærð hrygningarstofns, veiðistofns svo fátt eitt sé nefnt.

Bjartsýni ríkti

Samkvæmt skýrslu Hafró 2019 var ástand hrygningarstofns mjög gott og því spáð að hann mundi vaxa lítillega milli ára fara úr 617 þúsund tonnum í 629 þúsund tonn árið 2020.  Smávægilegur afturkippur yrði hins vegar í veiðistofninum færi úr 1.402 þúsund tonnum niður í 1.365 þús. tonn.  Líklega vegna 2016 árgangsins sem kæmi inn í veiðistofninn 2020 og var metinn mun lakari en árgangar 2014 og 2015.

Af þessum sökum var ekki búist við miklum breytingum milli ára, líklegt að leyfilegur heildarafli yrði í kringum 272 þúsund tonn.

Blikur á lofti

Þann 16. júní sl. birti Hafró 2020 skýrsluna.  Þar kom á óvart að lögð var til um 6% skerðing í þorski.  Helsta ástæða þess var að styrkleiki góðra árganga sem mynduðu veiðistofn skilaði sér ekki.  Mest var fall nýliðunar í 5 og 6 ára fiski, árgöngum 2014 og 2015.  Líkt var komið með 2011 og 2012 árgöngum 8 og 9 ára fiski, þar var munurinn um 5%.  Í skýrslunni var aðeins vakin athygli á því fyrrnefnda og talin ein tveggja meginástæðna fyrir að ráðlagður heildarafli yrði um 16 þúsund tonnum minni en í fyrra.

Í gögnum Hafrannsóknastofnunar um aldurskiptar vísitölur í fjölda í marsrallinu í árgöngum 2014 og 2015 vekur það sérstaka athygli, jafnvel að setji að manni óhug ef rétt er, að gildi þeirra nú eru aðeins um helmingur þess sem þær voru í fyrra.  Á fundi með sjávarútvegsráðherra vakti LS athygli á þessum mikla mun, frávikin væru einsdæmi á þessari öld.  Árgangar sem fyrir ári voru metnir nálægt langtímameðaltali eru nú ári síðar einungis helmingur af meðaltalinu.  Það verður að segjast eins og er að með ólíkindum er að í skýrslunni sé ekki reynt að geta sér til um hvers vegna slíkt eigi sér stað.  Á sama tíma og góðæri ríkir í sjónum og allt virðist í lagi skuli milljónir fiska vera horfnir.

Hrygningarstofn

Gríðarlegar sviptingar hafa orðið í mati Hafró á stærð hrygningarstofnsins.  Spá 2019 gerði ráð fyrir að hann yrði 29% stærri en mæling nú gefur til kynna.

Undanfarin ár hefur verið beðið eftir að risastór hrygningarstofn skili árgöngum þar sem fjöldi 3 ára nýliða fari vel yfir 200 milljónir.  Fara þarf aftur til 1984 til að finna slíkan árgang.  Á þeim tíma var stærð hrygningarstofnsins 22% af því sem áætlun 2019 gerði ráð fyrir að hann yrði í ár.

Skipt um hest í miðri á

Önnur ástæða fyrir skerðingu milli ára er rakin til þess að Hafró ákvað að breyta forsendum fyrir útreikningi á veiði- og hrygningarstofni, að nota vísitölur 1 til 14 ára þorsk í stofnmatið í stað 1 til 10 ára eins gert hefur verið.  Hér er um beint inngrip í aflareglu að ræða og miðað við það sem á undan er gengið varðandi gagnrýni á hana, kom það á óvart að ráðherra skildi samþykkja breytinguna.  Ekki síst þegar hún leiðir til skerðingar, sem þjóðin hefur síst efni á í þeim þrengingum sem fyrirsjáanlegar eru í lífskjörum almennings.

Ákvörðunin er ígildi útflutningsverðmæta allt að 10 milljarða.  Það von mín að ráðherra endurskoði ákvörðun sína og leyfi 272 þúsund tonna veiði.