fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minna mældist af síld en áður

6. júní 2012 kl. 10:52

Síld.

Norsk-íslenski síldarstofninn er á hægri niðurleið.

Í nýafstöðnum rannsóknaleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar mældist nokkru minna magn af síld innan íslensku landhelginnar en ásíðasta ári eða 420 þúsund tonn borið saman við 490 þúsund tonn 2011. 

Mun minna mældist hins vegar á þeim hluta alþjóðahafsvæðisins austur af lögsögu Íslands, sem rannsakað var af rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni, eða rúm 100 þúsund tonn miðað við tæp 700 þúsund tonn á síðasta ári. Í frétt frá Hafrannsóknastofnun segir að þessi munur stafi væntanlega að hluta til af breytileika í göngumynstri síldarinnar, en einnig því að stofninn sé talinn minni nú en á síðasta ári. 

Þar sem sterkir árgangar hafa ekki komið í stofninn síðan árið 2004, hefur hann verið á niðurleið frá 2009. Þessi þróun á stærð stofnsins mun halda áfram þar til sterkir árgangar koma inn í stofninn og þeir ná veiðanlegum aldri. Ennþá eru engar vísbendingar um að sterkir árgangar séu á leiðinni.