mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minni uppsjávarafli en meira til manneldis

25. júlí 2011 kl. 08:00

Úr vinnslusalnum í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði. Mynd/HB Grandi: Jón Sigurðsson

Skip HB Granda hafa nú landað um 11.000 tonnum af síld og makríl á Vopnafirði.

Veiðar á norsk-íslenskri síld og makríl hafa gengið vel í sumar og hafa skip HB Granda nú landað um 11.000 tonnum af síld og makríl á Vopnafirði. Þetta er um 5.000 tonnum minni afli en á sama tíma í fyrra en þrátt fyrir það hefur verið aukning í vinnslu til manneldis. Búið er að frysta um 6.000 tonn af afurðum og er það aukning um 600 tonn milli ára, að því er fram kemur á vef HB Granda.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hefur gengið nokkuð vel að halda uppi vinnslu í uppsjávarfrystihúsi félagsins á Vopnafirði þar sem á annað hundrað manns starfa nú í sumar.

,,Veiðar Ingunnar AK og Lundeyjar NS hafa gengið vel en það munar verulega um það að Faxi RE hefur enn ekki farið til veiða vegna breytinga, sem verið er að gera á skipinu, en við vonumst til að Faxi fari til veiða á næstu dögum. Þá munar einnig um að veiðarnar hófust um 10 dögum síðar í ár en á vertíðinni í fyrra,“ segir Vilhjálmur en er rætt var við hann var verið að ljúka við löndun á um 400 tonna makríl- og síldarafla Ingunnar á Vopnafirði og Lundey var þá að leggja af stað frá miðunum áleiðis til hafnar með um 450 tonna afla en uppistaða hans er makríll.