föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minni útflutningur sjávarafurða og verðhækkanir árið 2016

11. febrúar 2016 kl. 10:06

Loðna

Útflytjendur íslenskra sjávarafurða búast við því að verð á sjávarafurðum hækki um 2,5% á árinu mælt í erlendum gjaldmiðli.

Í nýju riti Peningamála Seðlabanka Íslands er  gert ráð fyrir að útflutningur sjávarafurða muni dragast saman um 1% á árinu 2016 sem má rekja til minni loðnu og kolmunnaafla. Frá þessu er greint á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Útflytjendur íslenskra sjávarafurða búast við því að verð á sjávarafurðum hækki um 2,5% á árinu mælt í erlendum gjaldmiðli. Árið 2015 hækkaði  verð um rúmlega 10,5% og því er ljóst að dregið hefur úr hækkunum undanfarinna ára. Vinnuaflseftirspurn mun almennt aukast á árinu samkvæmt niðurstöðu könnunnar Gallup þ.e.a.s. að hærra hlutfall fyrirtækja býst við því að fjölga starfsmönnum frekar en að fækka; þetta á þó ekki við um fyrirtæki í sjávarútvegi.

Reiknað er með að nokkur framleiðsluspenna sé að byggjast upp í hagkerfinu en sá framleiðsluslaki sem myndaðist í kjölfar fjármálakreppunnar hafi horfið árið 2015.                                                                    

Aftur á móti er minni hagvöxtur á heimsvísu sem endurspeglast í hægari vexti alþjóðaviðskipta. Til að mynda hefur hægst verulega á innflutningi hjá stórum viðskiptalöndum Íslands. Innflutningur til Rússland dróst saman um 27% en Rússlandsmarkaður hefur verið  verið stærsti markaður fyrir uppsjávarafurðir til manneldis og eins stór markaður fyrir karfaafurðir. Eins hefur innflutningsvöxtur hægst til Bretlands og Danmörku, sem eru bæði mikilvæg viðskiptalönd fyrir Ísland.