föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minnkandi áhugi á hrefnuveiðum í Noregi

12. apríl 2010 kl. 13:24

Þátttaka í hrefnuveiðum frá Noregi verður helmingi minni í ár en var á fyrstu árunum eftir að hvalveiðar í atvinnuskyni voru teknar upp á ný þar í landi árið 1993.

Aðeins 17 bátum hefur verið úthlutað veiðileyfum í ár samanborið við 26 báta í fyrra og 34-35 báta á upphafsárunum.

Í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren er haft eftir ráðgjafa um hvalveiðimál hjá norsku fiskistofunni að ástæðurnar fyrir þessari þróun séu fleiri en ein. Meginástæðan sé væntanlega sú að bátarnir hafi átt í nokkrum erfiðleikum með að losna við afurðirnar. Einnig er nefnt til sögunnar að fiskirí við Noreg hafi verið gott og því hafi sjómenn fleiri valkosti en áður. Loks er svo bent á að stærri strandveiðibátum hafi fækkað og menn sem áður hafi stundað hvalveiðar kunni að vera hættir á sjónum.

Því má svo bæta við að því fer fjarri að náðst hafi að veiða útgefinn hrefnukvóta á síðustu árum. Í fyrra veiddust t.d. innan við 400 hrefnur af 885 dýra kvóta, sem var minnsta ársveiði frá því að hrefnuveiðarnar hófust á ný árið 1993.