miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Miskátir með kvótasetningu

Guðsteinn Bjarnason
11. september 2020 kl. 13:00

Grásleppa í net. MYND/Þorgeir Baldursson

Grásleppuveiðar endurheimta líklega vottun og kvótasetning í bígerð

Allt bendir til að um miðjan nóvember verði grásleppuveiðar MSC-vottaðar á ný. Drög að frumvarpi um kvótasetningu grásleppuveiða hafa verið birt í Samráðsgátt.

Smábátasjómenn eru misánægðir með áform um að kvótasetja grásleppuna, að sögn Þorláks Halldórssonar, formanns Landssambands smábátaeigenda.

„Það er einn og einn mjög ánægður og aðrir arfabrjálaðir þannig að það er einn snúningurinn ennþá sem er framundan í þessu. Við skulum orða það þannig að ráðherranum er að takast að gera alla alveg snarvitlausa,“ segir hann.

Í lok síðustu viku birtust í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, þar sem meðal annars eru kynnt áform atvinnuvegaráðuneytisins um kvótasetningu grásleppunnar.

Í drögunum er gert ráð fyrir því að aflahlutdeild einstakra skipa verði ákveðin á grundvelli veiðireynslu leyfis en ekki veiðireynslu skipsins, og verði þá miðað við þrjú bestu veiðitímabil á árunum 2013 til 2018. Þá fær ráðherra heimild til þess að ákveða staðbundin veiðisvæði grásleppuveiða.

Veiðistjórnin ómarkviss

Í greinargerð með frumvarpinu segir að helstu ókostir núverandi veiðistjórnar felist í því að hún er ómarkviss. Heimildir séu „bundnar ákveðnum samfelldum dögum sem þýðir að þegar leyfi er virkjað á skip byrja dagar að telja óháð veðri, sem getur ýtt undir að veitt sé þótt veður séu slæm eða óæskilegur meðafli sé mikill."

Í því samhengi megi nefna „að óæskilegur meðafli sjávarspendýra og fugla er helsta ástæða þess að veiðarnar misstu vottun. Þá er ekki unnt að taka tillit til bilana, veikinda eða annarra ófyrirséðra tafa."

Grásleppuveiðar hér við land misstu MSC-vottun í byrjun árs 2018, en íslensk stjórnvöld hafa í samstarfi við Landssamband smábátaeigenda unnið hörðum höndum að því að endurheimta vottunina.

Um svipað leyti og frumvarpsdrögin birtust í Samráðsgáttinni sendu vottunarsamtökin Marine Stewardship Council frá sér lokadrög að vottun grásleppuveiða hér við land.

Að sögn Kristins Hjálmarssonar, verkefnastjóra Iceland Sustainable Fisheries (ISF), má reikna með því að Vottunarstofan Tún gefi út endanlegt vottunarskírteini um miðjan nóvember, „komi ekkert upp á.“

Síðasta vertíð vottuð

Kristinn greinir frá því að af hálfu ISF hefur verið búið þannig um hnútana að allt sem veiddist hér við land af grásleppu á síðustu vertíð telst vottað, fari svo sem horfir.

„Við sóttum um undanþágu sem þýðir að öll vertíðin síðasta telst vottuð, þannig að þá er hægt að fara að selja úr birgðum sem vottaða vöru.“

Þorlákur er mun ánægðari með þessi tíðindi heldur en áform stjórnvalda um kvótasetningu.

„Það virðist allt ætla að ganga eftir, þessi vinna sem við lögðum upp í með hana. Það er bara frábært."

Vottunin verður þó bundin tveimur skilyrðum.

„Það þarf að sýna fram á áframhaldandi umbætur,“ segir Kristinn. „Það þarf að sýna fram á að veiðarnar hindri ekki uppbyggingu teistustofnsins og sama með landselinn, sýna þarf fram á að veiðarnar hindri ekki uppbyggingu stofnsins.“