þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Missa stóran hluta árstekna sinna

Guðsteinn Bjarnason
14. maí 2020 kl. 10:10

Grásleppulöndun. MYND/Þorgeir Baldursson

Grásleppusjómenn hafa vart upp í útlagðan kostnað. Vísindamenn vísa gagnrýni á ráðgjöfina að mestu á bug og Hafrannsóknastofnun hyggst enga breytingu gera á ráðgjöfinni.

Mikil reiði er í grásleppusjómönnum þessa dagana, enda margir hverjir að missa stóran hluta árstekna sinna vegna stöðvunar veiðanna. Sumir eru að undirbúa málaferli gegn ráðherra, eins og greint var frá í Fiskifréttum síðustu viku, en það var ráðherra sem tók ákvörðun um að stöðva veiðarnar þegar heildaraflinn var að nálgast ráðgjöf ársins. Hörð gagnrýni hefur einnig komið fram á Hafrannsóknastofnun fyrir að breyta reiknireglum ráðgjafar núna í ár þannig að hún varð 4.646 tonn, sem er 12 prósent lægri ráðgjöf en á síðasta ári.

Gömul gögn ónothæf

Axel Helgason, grásleppusjómaður og fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda, hefur beint athyglinni að grein þeirra James Kennedy og Sigurðar Þórs Jónssonar frá 2017, þar sem upplýsingar úr gömlum veiðidagbókum eru notaðar til að umreikna aflatölur áranna 1985 til 2008. Þessir útreikningar voru síðan notaðir hjá Hafrannsóknastofnun til að ákveða veiðiráðgjöf ársins, en Axel fullyrðir að gömlu afladagbækurnar séu engan veginn nothæfar til að byggja áreiðanlegar tölur á.

Hann sendi þeim í byrjun vikunnar formlega áskorun, sem Landssamband smábátaeigenda tók undir, um að endurskoða niðurstöður sínar. Þeir Sigurður og James hafa nú svarað Axeli og segjast ekki telja ástæðu til að leiðrétta útreikninga sína. Hins vegar megi „setja spurningamerki við notagildi tímaraðar um landaðan afla grásleppu fram að því að Fiskistofa byrjaði að halda utan um grásleppuafla árið 2008.“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur í Morgunblaðsgrein fagnað gagnrýni sjómanna en segir engu að síður að kröfur um að hækka heildaraflann þvert á vísindalega ráðgjöf vera óábyrgan málflutning, enda sé „í hinu stóra samhengi mikilvægast að standa vörð um þá meginreglu að við stjórnum fiskveiðum okkar á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og tryggjum þannig sjálfbærar fiskveiðar.“

Að sögn Guðmundar Óskarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, verður að athuguðu máli engin breyting gerð á ráðgjöfinni.

Hundruð milljóna

Erfitt er að meta það fjárhagstjón sem grásleppuútgerðin verður fyrir vegna stöðvunar veiðanna, en nokkuð ljóst er þó að heildartekjutapið skiptir hundruðum milljóna króna. Sumir missa stóran hluta árstekna sinna vegna stöðvunar veiðanna.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaveiðimanna, áætlar að meðalkostnaður grásleppuútgerða sé um tvær milljónir króna. Er þá um að ræða útlagðan kostnað áður en veiðar hefjast, bæði endurnýjun veiðarfæra og annað sem því fylgir en einnig launakostnað því hver bátur þarf að hafa bæði skipstjóra og háseta.

Af þeim 163 bátum sem fóru á grásleppu í ár tókst innan við 40 að ná 44 daga veiði, en um 30 voru komnir með 15 daga eða færri og náðu því vart upp í útlagðan kostnað. Að sögn Arnar má einnig reikna með því að aflaverðmætið hafi verið um 200 þúsund krónur á dag.

Þá segir Örn að um 50 bátar hafi ekki verið byrjaðir þegar veiðar voru stöðvaðar. Margir þeirra eiga þó rétt til veiða í innanverðum Breiðafirði og geta því veitt í 15 daga.

„Þessir bátar sitja þá allir uppi með kostnaðinn án þess að hafa neitt á móti,“ segir Örn.