miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Missa veiðirétt út ágúst

Guðsteinn Bjarnason
21. ágúst 2020 kl. 10:10

Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda

Strandveiðar sumarsins hafa verið stöðvaðar en óskastaða smábátasjómanna hefði verið veiðar í september.

Örn Pálsson segir nauðsynlegt að geta brugðist við og leyft veiðar þegar ástandið í þjóðfélaginu er eins og það er. Sveigjanleika þurfi í lögin.

„Þetta veldur manni alveg gríðarlegum vonbrigðum,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, um stöðvun strandveiða. „Það er með ólíkindum að í lögum um stjórn fiskveiða sé að mati sjávarútvegsráðherra ekki sveigjanleiki sem heimili mönnum að bregðast við þegar ástandið er eins og það er í þjóðfélaginu.“

Í gær var síðasti strandveiðidagur sumarsins. Fyrirfram var gert ráð fyrir að þær stæðu út ágústmánuð en þar sem veiðiheimildir sumarsins eru uppurnar var tekin ákvörðun um að stöðva þær.

Örn segir sárt að horfa upp á menn þurfa að sitja aðgerðarlausir það sem eftir er mánaðarins.

„Sérstaklega á Norðaustur- og Austurlandi, þar sem alltaf er tregast á fyrri hluta strandveiðitímabilsins, þar hefur hver róðurinn á fætur öðrum verið mjög góður núna, afbragðsfiskur.“

Í lögunum var alltaf gert ráð fyrir því að fjöldi veiðidaga yrðu 48, tólf dagar í mánuði myndu duga.

„Þess vegna var ekki gerð sú breyting á lögunum sem hefði heimilað mönnum að fara strax á aðrar veiðar ef þær yrðu stöðvaðar. Nú þegar þriðjungur er eftir af ágúst og veiðarnar hafa verið stöðvaðar þá missa menn öll réttindi til veiða í lögsögunni. Það eru um 517 bátar sem hafa verið á strandveiðum í ágúst og standa nú frammi fyrir þessari staðreynd.“ Af þessum sökum tel ég einsýnt að vilji Alþingis hafi verið sá að veiðar yrðu ekki stöðvaðar.

Þarf að breyta lögum

Örn segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax og Alþingi kemur saman 27. ágúst.

„Það þarf einfaldlega að breyta lögunum svo strandveiðar haldi áfram í september. Þetta er eitt af því sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir, það er að veiða meira og skapa þannig atvinnu og gjaldeyristekjur þegar illa árar í þjóðfélaginu. Engin áhætta er tekin með því að auka við umhverfisvænar veiðar. Þetta á jafnt við veiðar smábáta með línu og handfærum. Auk þess að bæta í strandveiðar á hiklaust að hækka prósentu í línuívilnun til að efla atvinnu í landi. Þetta eru tækifæri sem stjórnvöld hafa og eiga að nýta sér. Að mati Hafrannsóknastofnunar eru þorsk- og ýsustofnar sterkir og því full rök fyrir aukinni veiði.“

Strandveiðin hefur engu að síður gengið vel í sumar. Í lok síðustu viku var þorskaflinn kominn yfir 10 þúsund tonn og meðalaflinn á dag hefur verið rúm 170 tonn. Alls hafa um 670 bátar verið á veiðum, en á síðasta ári voru þeir um 620. Á síðasta ári hefði þurft fleiri daga til að ná leyfilegum afla, en í ár hefði þurft að bregðast við með auknum heimildum. Árin tvö hefðu þannig komið út á pari með því að heimila þær út tímabilið.

„Strandveiðarnar hafa gengið vel en auðvitað hefði ég viljað sjá þetta alveg til ágústloka,“ segir Örn og telur að ráðherra hefði vel getað tryggt veiðar út mánuðinn. Auknum heimildum hefði hæglega mátt koma fyrir innan 5,3 prósenta pottsins, ef það þætti nauðsynlegt.