laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Misvísandi yfirlýsingar af hálfu Samfylkingarinnar um innköllun veiðiheimilda

27. apríl 2009 kl. 15:12

„Yfirlýsingar þingmanna Samfylkingarinnar um innköllun veiðiheimilda hafa verið mjög misvísandi eftir því hvort þeir eru af landsbyggðinni eða Reykjavíkursvæðinu,” segir Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ í samtali við Fiskifréttir.

„Landsbyggðarþingmenn hafa sagt við okkur að ekkert verði hróflað við núverandi fyrirkomulagi nema í samráði við útgerðina og sveitarstjórnir. Reykjavíkurþingmenn hafa á hinn bóginn lýst þeirri skoðun sinni að hjóla eigi beint í það að breyta kerfinu.”

„Ég vona að fallið verði frá þessum hugmyndum þegar menn fara að skoða málið nánar og sjá að þetta er ekki framkvæmanlegt. Bara yfirlýsingar um slík áform í því ástandi sem nú ríkir setur fyrirtækin öll í uppnám,” sagði Adolf.

Hann bætti því við að þingmönnum af Reykjavíkursvæðinu virtist alveg sama þótt samþjöppun aflaheimilda, sem hlytist af uppboði á innkölluðum kvóta, leiddi til þess að meginhluti heildarkvótans flyttist á sex, átta eða tíu fyrirtæki.

„Og það verður fátt um svör hjá þessum mönnum þegar spurt er hvað gera eigi við starfsfólkið í vinnsluhúsunum úti um allt land sem missir vinnuna þegar svona er komið,” sagði Adolf Guðmundsson.