þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mjög góð veiði á heimamiðum Grandaskipanna

22. maí 2019 kl. 08:30

Viðey RE. Mynd/HB Grandi: Kristján Maack

Líklega sótt á Vestfjarðamið eftir sjómannadag.

Ísfisktogarinn Viðey RE kom til hafnar í Reykjavík á mánudagsmorgun eða sólarhring á undan áætlun. Eina ástæðan er mjög góð aflabrögð á heimamiðum HB Grandatogaranna.

Þetta kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins.

Að sögn Jóhannesar Ellerts Eiríkssonar skipstjóra, var hann með Viðey á Fjöllunum og Eldeyjarbanka í þessari veiðiferð.

„Vertíðartímabilinu er að ljúka og fiskurinn að ganga út af hrygningarsvæðunum. Það er búin að vera mjög góð veiði og eini vandinn er að veiða í samræmi við þarfir vinnslunnar.“

Viðey var með 160 til 170 tonna afla í veiðiferðinni og þar af var um helmingurinn ufsi.

„Ufsinn veiðist mikið á karfaslóð, s.s. á Fjöllunum, en við reynum að forðast gullkarfann. Það hefur tekist nokkuð vel. Það er minna um þorsk núna á þessum hefðbundnu miðum okkar en togararnir hafa verið að fá mjög góða veiði út af Jökli. Það hefur greinilega verið mjög mikið af fiski í Breiðafirði í vetur en hann er að ganga út og mun svo skila sér norður eftir í ætisleit,“ segir Elli, eins og hann er jafnan kallaður, en hann á allt eins von á því að leið ísfisktogaranna liggi norður á Vestfjarðamið fljótlega eftir sjómannadag.