laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mjólkurkýrnar skila sínu þrátt fyrir háan aldur

Guðjón Guðmundsson
12. október 2020 kl. 07:00

Áhöfnin á Ljósafellinu með verðskuldaða viðurkenningu fyrir frábæran árangur. Mynd/Kjartan Reynisson

Skip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði - Hoffell og Ljósafell - með yfir tvo milljarða í aflaverðmæti.

Loðnuvinnslan í Fáskrúðsfirði gerir út uppsjávarskipið Hoffell SU, bolfisktogarann Ljósafell og línubátinn Sandfell SU. Vel hefur gengið á þessu ári og bæði Hoffellið og Ljósafellið hvort um sig skilað yfir einum milljarði króna fyrstu níu mánuði þessa árs.

Friðrk Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir að þennan góða árangur megi ekki síst þakka frábærum áhöfnum og haldið var upp á tímamótin með því að færa áhöfnum skipanna tertu eins og tíðkast hefur lengi hjá Loðnuvinnslunni.

Friðrik Mar segir árangur Hoffells ekki síst athyglisverðan í ljósi þess að engar loðnuveiðar voru á árinu.

Í fyrsta sinn yfir milljarð

„Makrílvertíðin var gjöful og okkur gekk mjög vel. Við fórum fyrr út í Síldarsmugu en áður en það er ekkert við það að athuga þegar veiðin er góð. En það þurfti hins vegar að hafa mikið fyrir kolmunnanum, fyrst og fremst vegna óhagstæðs veðurfars,“ segir Friðrik Mar.

Hann segir að þess gæti fljótt í betri afkomu útgerðarinnar og sjómanna þegar gengið sígur. Þannig hafi veiðarnar skilað meiri arðsemi sem endurspeglist í eftirtektarverðum aflaverðmætum skipanna beggja. Friðrik Mar segir ennfremur að þetta séu árangursríkustu níu mánuðir nokkru sinni í sögu veiða Ljósafells fyrir Loðnuvinnsluna. Þetta 47 ára gamla skip komst yfir eins milljarðs múrinn í aflaverðmætum í lok september sem hefur aldrei áður gerst á fyrstu níu mánuðum ársins. Skipstjóri á Ljósafellinu er Hjálmar Sigurjónsson. Langmest af afla Ljósafells er unnið á Fáskrúðsfirði en karfi er seldur á markaði.

Nýtt og öflugra frystikerfi

Hoffellið er heldur ekkert unglamb en þó ekki nema 21 árs gamalt skip. En loðnuvinnslan er þekkt fyrir að halda sínum skipum vel við. Hoffellið var í slipp í Færeyjum síðastliðið sumar þar sem undirbúningsvinna fyrir nýtt og öflugra frystikerfi var framkvæmd. Skipið er nú við bryggju í Þórshöfn í Færeyjum þar sem lokið verður við að setja kerfið upp. Hoffell var smíðað 1999 í Póllandi og vélbúnaður og innréttingar voru smíðaðar í Noregi.

„Skipin eru í fínu standi. Við vorum heppnir þegar við keyptum Hoffellið frá Noregi árið 2014. Skipið hefur reynst afskaplega vel. Það var lítið slitið og má segja að vélin hafi verið keyrð fimm árum minna en jafngömul skip sem við skoðuðum á þessum tíma. Ljósafellið er með hæggengar og sparneytnar vélar og skrúfan stór. Það var skipt um vél í skipinu, gír og skrúfu fyrir tæpum 30 árum og voru þessar breytingar sérstaklega hugaðar út frá olíusparnaði enda hátt olíuverð á þeim tíma.“