laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mokveiði af rígvænum þorski

Guðjón Guðmundsson
28. mars 2020 kl. 13:00

Bárður SH-81

Vertíðin hjá netabátum fyrir vestan gengur afburða vel.

Pétur Pétursson útgerðarmaður á Ólafsvík kveðst vart muna eftir jafn góðri vertíð og núna. Það sé fiskur út um allt og vel haldinn í meira lagi. Meðalvigt á slægðum þorski sé hátt í tíu kíló. Pétur gerir út tvo báta á aflamarkskerfið, þ.e. smábátinn Bárð SH 811 og stærsta trefjabátinn í íslenska flotanum, Bárð SH 81.

Pétur rær nú á minni bátnum en sonur hans og alnafni rær á þeim stærri. Bárður SH 81 er tæpir 27 metrar á lengd, sjö metra breiður og með 2,5 metra djúpristu. Hann er smíðaður hjá Bredgaard Boats í Rødbyhavn í Danmörku og er stærsti trefjaplastbátur sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð.

Aðalvélin í bátnum er frá MAN og er 900 hestöfl. Snurðvoðarspil, netatromla og stjórnbúnaður fyrir snurvoðina er með því fullkomnasta sem þekkist. Öll stjórnun á snurvoðinni er tölvustýrð með snertiskjá. Þá eru í honum tvær ljósavélar og hliðarskrúfur eru að framan og aftan.

Vestanganga?

„Þetta er hörkuvertíð. Smekkfullt af fiski alls staðar,” sagði Bárður sem var nýbúinn að draga netin. „Það hefur verið afleit tíð í allan vetur en þetta er að lagast núna. Það er alltaf betra þegar stendur af landinu. Veiðin er líklega með allra mesta móti í allan vetur og undanfarið ef miðað er við aðrar vertíðir. Það gekk inn síld í Breiðafjörðinn fyrir um það bil mánuði og það fylgdi henni mikið magn af fiski. Nú er líka komin loðna á svæðið svo það iðar allt af lífi. Ég frétti svo reyndar í dag að það væri mikil loðnuganga núna á Vestfjarðamiðum sem var ekki í gær. Þetta heyrði ég frá mönnum á línubátum þar sem voru ekki að fá neitt á línuna. Ég held að vestangangan sé að ganga upp að landinu. Það gæti hjálpað þjóðarbúinu ef rétt er,“ segir Pétur.

Hann segir að útgerðin á nýjum Bárði hafi gengið þokkalega. Nokkrir hnökrar hefðu komið upp eins og búast mætti við meðan verið væri að slípa hlutina til. Pétur yngri rær honum núna og er góður gangur í veiðunum. Minni báturinn er einungis í sínum þriðja róðri á þessari vertíð en Pétur eldri segir að þessi erfiða tíð í vetur hafi sett strik í öll áform. Núna þegar tíðarfarið breyttist ákvað hann að leggja net.

600 tonn í febrúar

Bárður nýi er aflahæsti báturinn í sínum stærðarflokki. Hann aflaði vel yfir sex hundruð tonn í febrúar sem óþarft er að benda á að er gríðarleg veiði á ekki stærra skipi. Veiðin er síðan orðin svipuð núna það sem af er marsmánuði. Bátarnir leggja báðir upp í Ólafsvík en Pétur ráðgerir að færa sig yfir í Arnarstapa ef hann fer að leggjast í norðlægar áttir.

„Það hefur verið fínasta fiskverð í vetur en það tekur að vísu langan tíma að fjármagna nýjan bát. En gangurinn í þessu hefur verið umfram væntingar hjá okkur. Þetta er mjög vænn fiskur sem við höfum verið að fá. Ég held að meðalvigtin á slægðum fiski sé nálægt 10 kíló. Síðustu viku hefur verið mikið af gríðarlega stórum fiski á ferðinni. Við höldum bara ótrauðir áfram nema einhver veiruskratti stoppi okkur af. Við vonum náttúrulega að vinnslurnar og samfélagið allt sleppi við þann ófögnuð,“ segir Pétur.